Telja nýtt sendingagjald réttlætanlegt

Höfuðstöðvar Íslandspósts.
Höfuðstöðvar Íslandspósts. mbl.is/​Hari

Póst- og fjarskiptastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að sérstakt gjald sem Íslandspóstur leggur á erlendar póstsendingar sé innan þeirra marka sem kveðið er á um í lögum.

Hið nýja gjald var kynnt í maí, og nemur 400 krónum á sendingum frá löndum innan Evrópu, en 600 krónum á sendingar frá öðrum löndum. Heimild fyrir gjaldinu er veitt í lögum um póstþjónustu, sem sett voru í vor, en Íslandspóstur réttlætti upptöku gjaldsins með því að „verð samkvæmt alþjóðlegum samningum um póstsendingar hafi verið allt of lágt til að standa straum af kostnaði við dreifingu á Íslandi“.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segist engar forsendur hafa til að meta hvort gjaldið er réttlætanlegt enda hafi allar tölulegar upplýsingar verið máðar úr úrskurðinum. Neytendasamtökin hafi sent Íslandspósti, og síðar Póst- og fjarskiptastofnun, fyrirspurn þar sem óskað er eftir sundurliðun á meintum tilkostnaði við móttöku erlendra sendinga. „Sá leyndarhjúpur sem Íslandspóstur og Póst- og fjarskiptastofnun hafa sveipað yfir þetta mál er alvarlegur,“ segir Breki, enda séu neytendur látnir borga brúsann í krafti einokunarstöðu Íslandspósts á markaðnum.

Neytendasamtökin hafa þegar leitað til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, og er hún með til skoðunar hvort gjaldið samræmist Evrópulögum um frjálst flæði vara innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Samtökin hafa áður vakið máls á því að við ákvörðun gjaldsins hafi ekki legið fyrir hver raunverulegur kostnaður Íslandspósts vegna erlendra sendinga væri er ákvörðunin var tekin.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK