Vissu ekki af uppsögnunum fyrr en í morgun

Um 60 starfsmönnum Valitor hefur verið sagt upp.
Um 60 starfsmönnum Valitor hefur verið sagt upp. Ljósmynd/Aðsend

Friðbert Traustason, framkvæmdarstjóri, Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja (SSF), segir samtökin ekki hafa vitað af uppsögnum nærri því 60 starfsmanna Valitor sem tilkynnt var um í dag. 

Í framhaldi af samþykkt stjórnarfundar Valitor í lok desember hefur verið hafist handa við endurskipulagningu á félaginu til þess meðal annars að snúa við taprekstri. Tilkynnt var í dag að með þessum aðgerðum fækkaði starfsfólki félagsins um nærri 60 starfsmenn, úr um það bil 390 starfsmönnum í nærri 330. 

Alls er um að ræða 9 uppsagnir á Íslandi, en aðrar breytingar varða starfsstöðvar Valitor í Danmörku og í Bretlandi. 

Friðbert segist enga vitneskju hafa haft um uppsagnirnar fyrr en í dag. 

Friðbert Traustason.
Friðbert Traustason. Ljósmynd/SSF

„Okkur var ekkert tilkynnt þetta fyrirfram. Við lásum í tilkynningu sem þeir birtu sjálfir 30. desember að það stæði til að fara í hagræðingaraðgerðir. En það var aldrei haft beint samband við okkur en það reyndar hittir þannig á að langflestir af þeim sem lenda í þessu núna eru erlendir starfsmenn sem starfa hjá Valitor aðallega í Danmörku og á Bretlandi. En um þessa níu á Íslandi fengum við vitneskju bara núna í morgun,“ segir Friðbert.

Afleiðingarnar eiga eftir að koma í ljós

Aðspurður segir Friðbert að enn hafi enginn haft samband við Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja vegna uppsagnanna í morgun. 

„En það er nú reynsla okkar að það gerist mjög fljótt. Menn lenda náttúrulega alltaf í miklu sjokki þegar þetta ríður yfir og það tekur alltaf svolítinn tíma að melta þetta.“

Mikið hefur verið um uppsagnir innan fjármálageirans síðustu mánuði. Sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun áætlar að allt að 9.400 manns verði á atvinnuleysisskrá í ár þegar mest lætur, en til samanburðar eru nú um 7.600 manns á atvinnuleysisskrá. 

Friðbert segir að enn hafi ekki komið í ljós hverjar afleiðingar hópuppsagna í fjármálageiranum á síðasta ári verði. 

„Það er ekki enn komið í ljós hverjar afleiðingar þessara uppsagna í haust verða. Bara á síðasta ári voru uppsagnir um 300, þar af langflestar í september eða október. Það fólk er flestallt enn að fá laun samkvæmt starfslokasamningi. Við getum ekki vitað strax hversu margir lenda í atvinnuleysi af þeim sem lentu í uppsögnum í haust, það á eftir að koma í ljós á næstu mánuðum. En það hefur gengið frekar vel hjá okkar fólki að finna ný störf,“ segir Friðbert.



mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK