Ásakanir um kynferðislegt ofbeldi minnkar markaðsvirði fyrirtækja

Ásakanir um kynferðislegt ofbeldi hafa mikil áhrif á markaðsvirði fyrirtækja. Þetta eru fyrstu niðurstöður í rannsókn sem dósent við HÍ stendur að. Fyrirtæki á alþjóðamarkaði lækka að meðaltali um 1,5% birtist slíkar ásakanir í fjölmiðlum. Upphæðirnar nema hundruðum milljóna dollara.

Úlf Níelsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hélt erindi um rannsóknina í hádegisfyrirlestri í dag. Mikið magn upplýsinga er tekið til greiningar og ná dæmin allt aftur til ársins 2005.  

„Ef forstjóri fyrirtækis er viðriðinn málið þá fellur hlutabréfaverð mun meira,“ segir Úlf og jafnframt að það skipti miklu máli hvernig haldið er utan um málið af hálfu fyrirtækisins. Í myndskeiðinu er rætt við hann um rannsóknina. Þekktustu dæmin segir hann vera mál sem hafi tengst Harvey Weinstein og Cristiano Ronaldo en mál hins fyrrnefnda hafi þó ekki verið hluti af rannsókninni þar sem þar hafi fyrirtækið ekki verið skráð á hlutabréfamarkað.

Engin íslensk fyrirtæki eru hluti af rannsóknargögnunum sem byggjast á fjölmiðlaumfjöllunum á ensku en Úlf segir enga ástæðu til að reikna með öðru en að sömu lögmál gildi hér á landi og í hinum vestræna heimi þaðan sem flest dæmin séu.

450 milljóna dala lækkanir

Um gríðarlegar upphæðir getur verið að ræða komi ásakanir um kynferðislegt ofbeldi innan fyrirtækis fram. Meðaltalslækkun fyrirtækja sem tekin voru til greiningar var um 450 milljónir dollara. Úlf leggur þó áherslu á að sálræni og félagslegi skaðinn verði ekki metinn til fjár og að mikilvægast sé að skapa umhverfi þar sem kynferðislegt ofbeldi kemur ekki upp.

Mikil fjölgun var á skráðum tilfellum í kjölfar #metoo-byltingarinnar en þeim fjölgaði um fjórðung. Það segir Úlf að skili sér í aukinni áhættu fyrir fyrirtæki. „Út frá áhættustýringu fyrirtækja þá má segja að það séu fjórfalt meiri líkur á að starfsmaður í fyrirtækinu þínu verði sakaður um kynferðislega áreitni nú en fyrir #metoo-byltinguna.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK