Jón, Unnur og Sveinbjörn bætast í hóp eigenda Landslaga

Jón Gunnar Ásbjörnsson, Unnur Lilja Hermannsdóttir og Sveinbjörn Claessen bætast …
Jón Gunnar Ásbjörnsson, Unnur Lilja Hermannsdóttir og Sveinbjörn Claessen bætast í hóp eiganda Landslaga. Ljósmynd/Aðsend

Þrír lögmenn hafa gengið inn í eigendahóp Landslaga lögfræðistofu, þau Unnur Lilja Hermannsdóttir, Jón Gunnar Ásbjörnsson og Sveinbjörn Claessen. Öll hafa þau starfað um árabil á Landslögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofunni.

Unnur lauk lagaprófi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012 en hóf störf með námi hjá Landslögum árið 2011. Hún hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2012. Unnur er formaður skólanefndar Menntaskólans við Hamrahlíð og varamaður í hæfnisnefnd lögreglu, og hefur einnig sinnt stundakennslu í kröfurétti við Háskólann í Reykjavík. Unnur er í sambúð með Tómasi Magnúsi Þórhallssyni lögmanni og saman eiga þau þriggja mánaða dóttur.

Jón Gunnar lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands vorið 2011 og hóf störf á Landslögum síðar sama ár. Áður en Jón Gunnar hóf störf hjá Landslögum hafði hann starfað á lögmannsstofunni BBA-Legal frá árinu 2010. Jón Gunnar hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2012 og fyrir Hæstarétti árið 2018. Hann hefur setið í laganefnd Lögmannafélags Íslands frá árinu 2017. Jón Gunnar er í sambúð með Nínu Guðríði Sigurðardóttur lögmanni og á þriggja ára dóttur.

Sveinbjörn hóf störf á Landslögum árið 2010 með laganámi. Sveinbjörn lauk meistaranámi frá lagadeild Háskólans í Reykjavík vorið 2012 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi síðar sama ár. Í maí 2019 öðlaðist Sveinbjörn réttindi til málflutnings fyrir Landsrétti. Þá hefur Sveinbjörn sinnt kennslu við Endurmenntun HÍ í verktaka- og útboðsrétti. Sveinbjörn er í sambúð með Sigríði Huldu Árnadóttur hjúkrunarfræðingi.

Landslög hafa verið starfrækt frá árinu 1971, en þar starfa nú 26 manns. Eigendur Landslaga eru fimmtán en alls starfa þar tuttugu lögfræðingar, þar af átján með lögmannsréttindi. Tólf þeirra hafa réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti og einn fyrir Landsrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK