Áfram tímabil hagræðingar og sameininga

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undanfarna mánuði og jafnvel alveg frá upphafi árs 2018 hafa mörg ferðaþjónustufyrirtæki unnið að því að hagræða í rekstri sínum og jafnvel sameinast til að mæta aukinni samkeppni og harðara árferði í greininni. Þá hafði fækkun ferðamanna í kjölfar falls WOW air aukin áhrif í þessa veru og ekki sér fyrir endann á því. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að hann eigi áfram von á hagræðingu og sameiningarfasa í greininni á þessu ári.

„Strategía“ Icelandair spilaðist vel

Á föstudaginn birti Ferðamálastofa tölur um komur ferðamanna til landsins í fyrra í gegnum Keflavíkurflugvöll. Fækkaði komum þeirra um 330 þúsund, að mestu frá Bandaríkjunum, eða um 220 þúsund. Þá varð einnig mikil fækkun frá Kanada og Bretlandi og skýrir uppsöfnuð fækkun ferðamanna frá þessum þremur löndum um 90% af samdrættinum milli ára.

Jóhannes segir í samtali við mbl.is að þessar tölur séu nokkuð á pari við það sem SAF hafi spáð eftir fall WOW air. Hann segir að í raun hafi sveigjanleiki Icelandair, sem flutti 30% fleiri farþega í fyrra en árið 2018, hjálpað mikið til að niðurstaðan yrði ekki verri. „Það er magnað hvað sveigjanleikinn er mikill í kerfinu hjá þeim til að halda fjöldanum uppi. Þeirra strategía hefur spilast vel,“ segir Jóhannes og vísar til breytinga á flugáætlun félagsins með það að markmiði að fá fleiri ferðamenn til landsins.

Hótel á suðvesturhorninu finna mest fyrir samdrættinum

Bandarískir ferðamenn hafa alla jafna stoppað á Íslandi í styttri tíma en gestir frá mörgum öðrum þjóðum. Þá halda þeir sig meira á suðvesturhorninu og eru mikið á Suðurlandinu og í kringum höfuðborgarsvæðið. Jóhannes segir að fækkun þessara gesta hafi því leitt til þess að fyrirtæki sem sinni þessum hópi og þau sem séu á suðvesturhorninu hafi orðið hvað harðast fyrir samdrættinum. Nefnir hann sérstaklega hótel- og gistiþjónustu í því samhengi vegna þess að hver ferðamaður eyðir nú hærri upphæð meðan á dvölinni stendur, en hótelin hafa lækkað verð til að reyna að trekkja gestina að.

Ferðamenn bíða í hríð eftir rútunni. Það hafa verið kaldir …
Ferðamenn bíða í hríð eftir rútunni. Það hafa verið kaldir mánuðir í ferðaþjónustu undanfarið og ekki sér fyrir endann á því. mbl.is/​Hari

„Vonandi að við stöndum sterkari eftir þennan öldudal“

Jóhannes er þó þokkalega bjartsýnn á framtíð greinarinnar og segir að tekist hafi að byggja vel undir hana á undanförnum árum, jafnvel þótt það hafi verið gert á eins konar hlaupum í uppsveiflunni. „Þrátt fyrir allt og þótt ýmsir hafi talað um erfiðleika þá er ferðaþjónustan samt mjög sterkur grundvallaratvinnuvegur.“

Nefnir hann að fjölmörg fyrirtæki sem hafi séð fækkun gesta hafi farið út í nýsköpun og breytt og bætt vöruúrvali sitt og þannig getað boðið upp á betri þjónustu sem hafi skilað hærri tekjum. „Það er því vonandi að við stöndum sterkari eftir þennan öldudal,“ segir Jóhannes.

WOW air féll í lok mars á síðasta ári og Jóhannes segir að vegna þess megi áfram gera ráð fyrir fækkun ferðamanna núna fyrstu mánuði ársins þegar samanburðurinn séu sömu mánuðir í fyrra. Hann á hins vegar von á að jafnist út þegar líður á árið og að vonandi verði heildarfjöldinn svipaður eftir árið, jafnvel að ferðamönnum fjölgi örlítið í sumar. Það fari þó allt eftir því hvernig flugframboð leggist upp, en minna framboð var til að mynda í vetur.

„Fasi hagræðingar og sameiningar

Um 80% af fyrirtækjum í ferðaþjónustu hér á landi eru með undir 10 starfsmenn og Jóhannes segir að undanfarna mánuði hafi mörg þeirra verið að segja upp kannski 1-3 starfsmönnum. Þar sem engin tilkynningarskylda sé vegna slíkra uppsagna sé erfitt að sjá heildarmyndina núna, en hann telur að á heildina litið sé um talsverðan fjölda að ræða.

Jóhannes segir að fyrirtæki í greininni séu enn að vinna að hagræðingu og þannig hafa til dæmis komið fram dæmi um sameiningar hjá bæði rútufyrirtækjum og afþreyingarfyrirtækjum. Jóhannes segist eiga von á því að þessi þróun muni halda áfram á þessu ári. Segir hann að nú sé ferðaþjónustan komin á annan fasa þróunar eftir mikla uppsveiflu með mikilli fjárfestingu. „Þessi annar fasi er fasi hagræðingar og sameiningar. Það er eðlilegt að atvinnugrein fari í gegnum slíkt, en það er ekki sársaukalaust og því fylgir fækkun starfsfólks,“ segir Jóhannes.

Ferðamenn sem komu í gegnum Keflavíkurflugvöll voru 1,98 milljónir í …
Ferðamenn sem komu í gegnum Keflavíkurflugvöll voru 1,98 milljónir í fyrra og fækkaði um 330 þúsund milli ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kallar eftir aðkomu ríkisins að auknu markaðsstarfi

Í árferði sem þessu segir Jóhannes að fyrirtæki geti ekki tekið á sig auknar launakröfur eða kostnað af hendi hins opinbera, sem hann segir þegar mjög háan í alþjóðlegum samanburði. Þá segir hann að í grein sem þessari þurfi ekki að bíða eftir breyttri efnahagssveiflu. Besta ráðið væri að keyra af stað með kynningarstarf og bætta markaðsstefnu. Vísar hann til þess að ríkið gæti komið til hjálpar að koma því starfi af stað til að koma í veg fyrir frekari samdrátt og helst snúa blaðinu við og þannig ýta undir frekari skatttekjur ríkisins á komandi árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK