„Mjög góður tími til að fjárfesta“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert

Á þessu ári er áætlað að Reykjavíkurborg ráðist í framkvæmdir á innviðum fyrir samtals 19,6 milljarða og á næstu árum verði slík fjárfesting samtals fyrir um 85 milljarða og er líklegt að bætist við þá upphæð frekar en að dregið verði úr. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Dags B. Eggertsson borgarstjóra á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins, í dag. Þegar heildarfjárfestingar borgarinnar með fjárfestingum dótturfélaga eða hlutdeildarfélaga sem eru í samstæðu borgarinnar er heildarfjárfesting rúmlega 46 milljarðar á þessu ári.

Dagur sagði að slaki væri í efnahagslífinu og að nýta þyrfti þann tíma til fjárfestinga. „Við erum stödd á einu stærsta uppbyggingatímabilinu,“ sagði hann og vísaði til íbúðauppbyggingar í Reykjavík auk þess sem áformað er að fara í stórar samgönguframkvæmdir á komandi árum, sérstaklega í tengslum við Miklubraut og hluta Sæbrautar í stokk og verkefni sem tengjast borgarlínu.

Samgöngusáttmálinn langstærsta málið

Dagur segir að litið til komandi ára sé samgöngusáttmálinn langstærsta málið. Það sé hins vegar fyrst og fremst á undirbúningsstigi á þessu ári, en muni svo detta fljótt inn á komandi árum. Hins vegar fari umtalsverðir fjármunir á þessu ári í að fylgja eftir mikilli íbúðauppbyggingu, t.d. á Hlíðarenda, í Vogabyggð og svo sé verið að fara af stað með íbúðabyggð í Gufunesi samhliða uppbyggingu kvikmyndavers á þessu ári.

„Húsnæðisuppbygging er umfangsmeiri en áður og því fylgja fjárfestingar af öðru tagi, í götum, í torgum og alls konar frágangi, grænum svæðum og leiksvæðum. En líka í samgöngutengingum og samgöngumannvirkjum,“ segir Dagur. „Ef við horfum til næstu ára verður uppbygging íbúða- og atvinnuhúsnæðis meðfram hinni nýju borgarlínu og þannig fléttast þetta allt saman. Borgin telur að í ár og næstu ár sé mjög góður tími til að fjárfesta.“ Segir hann það bæði vera út frá efnahagsástandinu og slaka sem sé til staðar, en einnig skipti fjárfestingar miklu út frá þróun umferðar. „Það er mjög mikilvægt að borgarlína og uppbygging göngu- og hjólastíga mæti því.“

Milljarðaverkefni í Úlfarsárdal, smáhýsi, leikskóladeildir, skíðasvæði og Grófarhús

Af þeim 19,6 milljörðum sem áformaðir eru í innviðauppbyggingu er í ár aðeins gert ráð fyrir 565 milljónum í tengslum við samgöngusáttmála sem var kynntur sem samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins í fyrra. Skiptist upphæðin þannig að 9,3 milljarðar eru áætlaðir í fasteignir og stofnbúnað, 8,1 milljarður í götur og umhverfi og 2,1 milljarður í aðrar fjárfestingar.

Graf/Reykjavíkurborg

Undir fasteignum og stofnbúnaði eru meðal annars íþróttamannvirki, skólamannvirki og menningarstofnanir. Langstærsta verkefnið þar er skóli, menningarmiðstöð, sundlaug og íþróttamannvirki í Úlfarsárdal upp á 13 milljarða, en á þessu ári er áætlað að það fari tæplega þrír milljarðar í þá framkvæmd. Þá fara 2,3 milljarðar í nýjar leikskóladeildir, 200 milljónir í Grófarhús, 200 milljónir í smáhýsi fyrir fólk sem er utangátta og 700 milljónir í íþróttamannvirki ÍR í Mjódd. Einnig fara 519 milljónir vegna nýs samnings varðandi uppbyggingu skíðasvæðanna í Skálafelli og Bláfjöllum.

400 milljónir vegna Tryggvagötu

Stærsta upphæðin undir götu- og umhverfisflokknum er 2,8 milljarðar vegna nýbyggingahverfa. Þá fara 1,6 milljarðar í umhverfis- og aðgengismál, en þar undir eru meðal annars 500 milljónir í hjólareiðaáætlun. 784 milljónir fara í malbik og viðgerðir og 820 milljónir í ýmsar framkvæmdir í miðborginni, þar sem Tryggvagatan er stærsti pósturinn með 400 milljónir.

Þá fara 1,2 milljarðar í hlut Reykjavíkurborgar í þjóðvegum og öðrum umferðargötum, en þar er stærsti hlutinn samgöngusáttmálinn upp á 565 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK