Kallar á „erfiðar og sársaukafullar aðgerðir“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefna Icelandair hefur undanfarin ár verið sú að eiga lausafé sem getur fleytt félaginu í gegnum þrjá tekjulausa mánuði. Um áramótin átti félagið 37 milljarða króna í lausafé og samkvæmt tilkynningu fyrir helgi var það enn lausfjárstaða félagsins. Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, segir í samtali við mbl.is að margt geti breyst með skömmum fyrirvara og ástandið sé kvikt. Staða Icelandair hafi hins vegar verið sterk fyrir. „Við komum vel inn í þessar aðstæður, en þetta er auðvitað fordæmalaust ástand,“ segir hann.

Í gær funduðu forsvarsmenn Icelandair með ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Spurður hvað hafi verið rætt þar segir Bogi að félagið hafi átt í góðum samskiptum við yfirvöld síðan útbreiðsla veirunnar fór að hafa áhrif. Hann segir að um upplýsingafund hafi verið að ræða og að ekki hafi verið rætt um neina aðkomu ríkisins að félaginu.

Horfa á alla möguleika til að minnka útflæði fjármagns

Icelandair biðlaði fyrir helgi til starfsfólks að taka launalaust leyfi og fullnýta fæðingarorlof ætti það slíkt. Bogi segir aðspurður að vel hafi verið tekið í þessa beiðni, en Icelandair hafi einnig átt í viðræðum við stéttarfélög starfsmanna varðandi stöðuna. „Við verðum að bregðast við og lækka rekstrarkostnað verulega,“ segir hann. „Við erum að horfa á alla möguleika hvernig hægt sé að minnka útflæði fjármagns með sem kraftmestum hætti og helst strax.“

„Þessar aðstæður kalla á erfiðar og sársaukafullar aðgerðir,“ segir Bogi spurður hvort félagið geti komist hjá uppsögnum.

Ræða tímabundna launalækkun og hlutastörf við stéttarfélög

Bogi tekur þó fram að uppsagnir þurfi ekki endilega að vera þær aðgerðir sem gagnist best í nærtíma til að draga úr kostnaði. Bendir hann á að það að hafa fólk á uppsagnarfresti sé líka kostnaðarsamt. Segir hann að rætt hafi verið við stéttarfélögin um tímabundna launalækkun og hlutastörf og það sé meðal þess sem nú sé horft til. Þá sé félagið einnig að bíða eftir endanlegri lagasetningu varðandi starfsmannamál sem ríkisstjórnin vinni núna að.

Mikil óvissa er í rekstri Icelandair vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Bogi …
Mikil óvissa er í rekstri Icelandair vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, segir aðstæðurnar kalla á „erfiðar og sársaukafullar aðgerðir“.

Í flota Icelandair er umtalsvert af Boeing 757-vélum, auk Boeing 767 og svo tók félagið á leigu þrjár 737-800-vélar. Þegar hefur verið gengið úr einum samningi um 737-800 vél, en hvert er plan félagsins ef enn heldur áfram að draga úr eftirspurn? Bogi segir að 757-vélunum verði lagt tímabundið ef ekki sé þörf á þeim. Icelandair eigi þessar vélar og ekki sé mikil fjárbinding í þeim. „Það hjálpar okkur verulega í svona aðstæðum,“ segir hann. Talsvert lægri rekstrarkostnaður sé hins vegar á 737-800-vélunum og því hagkvæmara að nota þær að hans sögn.

Horfa ekki til þess að allt flug leggist af

Í gærkvöldi gaf félagið út að flugframboð hefði dregist saman um 30% hjá félaginu og að óbreyttu sé gert ráð fyrir að flugframboð muni að minnsta kosti dragast saman um 25% frá því sem áður hafði verið kynnt yfir háannatíma sumarsins. Spurður hvort félagið horfi jafnvel til þess að allt flug verði lagt niður tímabundið segir Bogi að félagið hafi ekki stillt málum upp þannig. Hins vegar sé ljóst að dýfan geti orðið dýpri en nú sé. Þannig sé eftirspurn í dag drifin áfram af fólki sem vilji komast til síns heima, en þegar líði á gæti eftirspurn minnkað. „Þá mun eftirspurn minnka enn frekar og skera verður rekstrarkostnað niður samhliða,“ segir hann og bætir við að eftirspurnin sé metin dag frá degi og leiðarkerfinu verði breytt samkvæmt því.

Ætla að vera tilbúin þegar bókanir taka við sér á ný

Telur hann ljóst að þegar faraldurinn hefur gengið yfir muni það leiða til kólnunar í hagkerfi heimsins og minni eftirspurnar en áður. „En við munum líklega sjá samþjöppun í fluggeiranum sem vegur upp á móti. Við ætlum að vera tilbúin þegar bókanir taka við sér aftur og allt sem við gerum miðar að því að búa sig undir hið versta en tryggja sveigjanleika leiðarkerfisins.“

Frestun gjalda hjálpar á tímum sem þessum

Ríkisstjórnin tilkynnti í síðustu viku aðgerðir sínar til að örva hagkerfið og reyna að draga úr neikvæðum áhrifum á atvinnulífið. Meðal þeirra aðgerða var tímabundin niðurfelling gjalda á ferðaþjónustu, auka svigrúm varðandi skil á opinberum gjöldum, auka laust fé í umferð og auka útgjöld ríkisins í framkvæmdir. Þá hefur Isavia tilkynnt um niðurfellingu notendagjalda á Keflavíkurflugvelli vegna stöðunnar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, kemur af fundi með ríkisstjórninni …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, kemur af fundi með ríkisstjórninni fyrir helgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður út í þessar aðgerðir og áhrif á Icelandair segir Bogi að aðgerðirnar hjálpi öllu atvinnulífinu. Segir hann að greiðslufrestur, meðan ekkert komi í kassann, hjálpi sérstaklega í aðstæðum sem þessum, en lækkun gjalda á Keflavíkurflugvelli á þessum tímapunkti hafi hins vegar óveruleg áhrif þar sem eftirspurnin sé svona lítil.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK