Uppstokkun í stjórn Íslandsbanka

Friðrik Sophusson hættir í stjórn Íslandsbanka eftir áratuga starf sem …
Friðrik Sophusson hættir í stjórn Íslandsbanka eftir áratuga starf sem stjórnarformaður. mbl.is/Golli

Þrír nýir stjórnarmenn munu taka sæti í stjórn Íslandsbanka á aðalfundi bankans á fimmtudaginn. Þar af mun nýr stjórnarformaður taka við eftir setu Friðriks Sophussonar í áratug á þeim stól og varaformaðurinn býður sig ekki fram á ný.

Í stjórn Íslandsbanka eiga sæti sjö einstaklingar, en þeir sitja þar fyrir hönd Bankasýslu ríkisins, sem fer með 100% hlut ríkisins í bankanum. Samkvæmt tilkynningu um framboð í stjórnina frá bankanum til Kauphallarinnar kemur fram að þau Friðrik Sophusson, Auður Finnbogadóttir og Tómas Már Sigurðsson munu ekki halda áfram í stjórninni.

Friðrik hefur verið stjórnarformaður bankans frá árinu 2010. Auður hefur setið í stjórn síðustu fjögur ár og Tómas verið varaformaður stjórnar frá því í fyrra. Tómas var áður aðstoðarforstjóri Alcoa á heimsvísu, en tók í nóvember við sem forstjóri HS Orku.

Þau Anna Þórðardóttir, Árni Stefánsson, Hallgrímur Snorrason og Heiðrún Jónsdóttir, sem öll hafa setið í stjórninni frá árinu 2016 bjóða sig fram að nýju á fundinum í ár. Er Hallgrímur einn í framboði sem stjórnarformaður bankans.

Þrjú ný eru í framboði til stjórnarinnar. Það eru þau Flóki Halldórsson, Frosti Ólafsson og Guðrún Þorgeirsdóttir. Miðað við fjölda framboða er sjálfkjörið í stjórnina.

Úr tilkynningu um framboð til stjórnar:

Hallgrímur Snorrason er fæddur árið 1947 hefur verið stjórnarmaður frá apríl 2016. Hann starfar sjálfstætt sem ráðgjafi í opinberri hagskýrslugerð. Hann gegndi starfi Hagstofustjóra 1985-2007 og var aðstoðarforstjóri Þjóðhagsstofnunar 1980-1984. Hann hefur setið í fjölda stjórna, m.a. bankaráði Útvegsbanka Íslands hf., Skýrr og Auðar Capital. Hann hefur jafnframt verið formaður ýmissa stjórnskipaðra nefnda, bæði innlendra sem og nefnda tengdra norrænu samstarfi, EFTA, ESB og OECD. Hallgrímur er með M.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Lundi og B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Edinborg.

Anna Þórðardóttir er fædd árið 1960 og hefur verið stjórnarmaður frá apríl 2016. Hún hefur mikla reynslu af stjórnarsetu. Hún hefur setið í stjórn KPMG og í Félagi löggiltra endurskoðenda. Hún situr í stjórn Framtíðarseturs Íslands, Heimavalla og er formaður endurskoðunarnefndar Haga. Anna starfaði hjá KPMG á árunum 1988-2015, þar af sem eigandi frá 1999 og bar m.a. ábyrgð á endurskoðun hjá eftirfarandi félögum: Reitum, Högum, 365, Baugi Group, Vodafone, Landfestum, Landey, 10-11 og Félagsbústöðum. Anna er löggiltur endurskoðandi og er með Cand.oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hún stundaði Cand.merc. nám í fjármálafræðum við Handelshøjskolen í Århus.

Árni Stefánsson er fæddur árið 1966 og hefur verið stjórnarmaður frá apríl 2016. Hann hefur víðtæka stjórnunarreynslu tengda stóriðju á Íslandi. Hann starfar sem framkvæmdastjóri, og situr í framkvæmdastjórn hjá Rio Tinto. Árni hefur áður starfað sem framkvæmdastjóri hjá Norðuráli Grundartanga, deildarstjóri hjá Landsneti og yfirmaður netrekstrar hjá Landsvirkjun. Árni er með M.Sc. gráðu í rafmagns- og rekstrarverkfræði og B.sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku.

Flóki Halldórsson er fæddur árið 1973 og hefur ekki áður setið í stjórn bankans. Hann hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hann var framkvæmdastjóri Stefnis á árunum 2009-2019. Á árunum 2001-2009 starfaði hann sem sjóðstjóri hjá forvera Stefnis. Þar áður var Flóki fjárfestingarstjóri hjá Burðarási. Flóki hefur gegnt stjórnarstörfum hjá félögum tengdum starfsemi Stefnis og síðastliðið ár sat hann í stjórn Stefnis. Flóki er með EMBA gráðu frá Copenhagen Business School og B.A. í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Frosti Ólafsson er fæddur árið 1982 og hefur ekki setið áður í stjórn bankans. Frosti er fráfarandi forstjóri ORF Líftækni, leiðandi þekkingarfyrirtækis í plöntulíftækni sem jafnframt á og rekur snyrtivörumerkið BIOEFFECT. Frosti hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og ráðgjafi hjá McKinsey & Company. Í sínum fyrri verkefnum hefur Frosti veitt leiðandi innlendum og alþjóðlegum fyrirtækjum ráðgjöf og þjónustu á breiðu sviði, m.a. við stefnumörkun, hagsmunagæslu, rekstrarumbætur og stjórnarhætti. Að loknum tíma sínum hjá ORF Líftækni mun Frosti starfa sem sjálfstæður ráðgjafi. Frosti situr í stjórn Háskólans í Reykjavík og félögum sem tengjast háskólanum, í stjórn framtakssjóðsins Freyju og í ýmsum dótturfélögum sem heyra undir ORF Líftækni. Frosti er með MBA gráðu frá London Business School og B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og Macquire University í Sydney í Ástralíu.

Guðrún Þorgeirsdóttir er fædd árið 1979 og hefur ekki áður setið í stjórn bankans. Guðrún er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá PayAnalytics. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Skeljungi. Guðrún hefur reynslu sem framkvæmdastjóri áhættustýringar og sem fjárfestingarstjóri. Guðrún er reyndur stjórnarmaður og hefur gegnt stjórnarstörfum í tryggingarfélögum, fjármálafyrirtækjum og verslunar- og þjónustufyrirtækjum og hefur meðal annars setið í stjórn Vátryggingafélags Íslands, Lífís, Lyfju og Lýsingu. Guðrún er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, MBA frá HEC School of Management í Frakklandi og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Heiðrún Emilía Jónsdóttir er fædd árið 1969 og hefur verið stjórnarmaður frá apríl 2016. Auk þess að sitja í stjórn bankans er hún stjórnarmaður í Icelandair Group, Regin fasteignafélagi og varaformaður Lögmannafélags Íslands. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Eimskipafélagi Íslands, Lex Lögmannsstofu og framkvæmdastjóri lögfræði- og mannauðssviðs KEA. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnarsetu frá árinu 1998. Hún hefur meðal annars verið formaður stjórnar Norðlenska, Íslenskra verðbréfa, Gildis lífeyrissjóðs og stjórnarmaður í stjórn Ístaks, Reiknistofu bankanna, Arion verðbréfavörslu, Þekkingar, Landssambands lífeyrissjóða, Símans og Olíuverzlunar Íslands. Heiðrún er með embættispróf frá lagadeild Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hún lauk stjórnendanámi, Advanced Management Program (AMP) frá IESE Business School í Barcelona á Spáni 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK