Staðan sterk en óvissan mikil

Það er mikil óvissa í samfélaginu um þessar mundir en …
Það er mikil óvissa í samfélaginu um þessar mundir en menn eru sammála um að ástandið vegna veirunnar sé tímabundið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er bara óvissa, óvissa, óvissa,“ segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, í samtali við mbl.is spurður út í ástand efnahagsmála í ljósi útbreiðslu og aðgerða sem nú eru í gangi vegna kórónuveirunnar. 

„En það er að hjálpa okkur á Íslandi núna að við erum með alveg gríðarlega sterka stöðu ríkissjóðs,“ bætir Daníel við. 

Hvað varðar hlutabréfamarkaðinn segir hann að það sé ekki mikil velta á bak við þau viðskipti sem eru þar í gangi. Menn haldi að sér höndum í þeirri óvissu sem ríkir. Þá hefur gengisvísitalan ekki verið hærri í um fimm ár. 

„Það vita allir að þetta er tímabundið en maður veit bara ekki hversu tímabundið.“

Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.
Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun að gera mætti ráð fyrir að halli rík­is­sjóðs myndi nema 100 millj­örðum króna á ár­inu vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Daníel segir að ummæli ráðherra gefi til kynna stærðargráðuna á þeim aðgerðum sem stjórnvöld þurfi að ráðast í hér á landi.

Daníel tekur fram að aðgerðir stjórnvalda muni skipta gríðarlega miklu máli og vega þyngra en vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands. Hann tekur þó fram að vaxtalækkanirnar séu einnig mjög hjálplegar, en þær muni þó vega þyngra þegar fram í sækir og bataferlið komið í gang. 

Væntanlegar aðgerðir stjórnvalda munu skipta miklu máli, en Daníel segir …
Væntanlegar aðgerðir stjórnvalda munu skipta miklu máli, en Daníel segir mikilvægt að aðgerðirnar séu hnitmiðaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðspurður um útlitið fram undan segir Daníel að stjórnvöld séu að tikka í öll réttu boxin. Hvað varðar ríkisfjármálin þá sé skiljanlegt að það taki tíma útfæra þau og því mikilvægt að menn séu þolinmóðir gagnvart því. Hann vonast til þess að aðgerðirnar verði hnitmiðaðar, þ.e. gagnist þeim sem þurfa mest á aðstoð að halda. Hluti af íslensku atvinnulífi, s.s. íslenskur sjávarútvegur, standi sterkari eftir veikingu krónunnar. Það séu lítil og meðalstór fyrirtæki sem verði fyrir þyngsta högginu og allra mest í ferðaþjónustunni þar sem allt stöðvaðist snögglega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK