„Ísland verður ferðaþjónustuland áfram“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ítrekaði að horfa þyrfti til þess að …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ítrekaði að horfa þyrfti til þess að efnahagslega áfallið væri tímabundið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Efnahagsáfallið sem nú gengur yfir Ísland og heiminn er tímabundið. Það eru jákvæðu fréttirnar, þótt neikvæðu fréttirnar séu að veiran hefur áhrif á líf og heilsu fólks. Ljóst sé að faraldurinn mun ganga yfir og aðgerðir miðað við það. „Ísland verður ferðaþjónustuland áfram.“ Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar nú í morgun.

Á fundinum sagði Ásgeir að veiking krónunnar um 10% frá áramótum væri hollustumerki. Sagði hann að í áföllum leituðu fjárfestar í stærri myntir og minni myntir eins og krónan veiktust þá. Sagði hann því ekkert óeðlilegt við það. Þá taldi hann ólíklegt að við myndum sjá mikla verðbólgu vegna þessarar gengislækkunar í ljósi þess að samdráttur væri í hagkerfinu og hægt hefði á eftirspurn.

Engin inngrip Seðlabankans í þessari viku

Sagði hann að í þessum aðstæðum væri gott að vera með krónu og sjálfstætt myntsvæði. Þannig hefði verið hægt að lækka vexti og prenta peninga með lækkun bindiskyldunnar og það gæfi meiri sveigjanleika til að bregðast við.

Ferðaþjónustan hefur orðið fyrir gríðarlega miklu höggi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. …
Ferðaþjónustan hefur orðið fyrir gríðarlega miklu höggi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Ásgeir segir að Ísland verði þó áfram ferðaþjónustuland eftir að faraldurinn er genginn yfir. mbl.is/Ómar

Upplýsti Ásgeir á fundinum að þrátt fyrir veikingu krónunnar hefði Seðlabankinn ekki gripið inn í á gjaldeyrismarkaði í þessari viku.

Fullt svigrúm til að endurskipulegga skuldir ferðaþjónustunnar

Í morgun var upplýst um að samhliða lækkun stýrivaxta niður í 1,75% þá hefði fjármálastöðugleikanefnd ákveðið að aflétta 2% kröfu um sveiflu­jöfn­un­ar­auka, en talið er að það muni hafa já­kvæð áhrif til banka og fjár­mála­stofn­ana til að auka svig­rúm til nýrra út­lána um allt að 350 millj­arða. Ásgeir sagði að með þessu væri verið að gefa fjármálastofnunum fullt svigrúm til að endurskipuleggja til dæmis skuldir ferðaþjónustunnar ef þörf væri á, en í morgun greindi Morgunblaðið meðal annars frá því að fjöldi hótela hefðu lokað eða væru að fara að loka á höfuðborgarsvæðinu vegna áhrifa á útbreiðslu kórónuveirunnar.

Ítrekaði Ásgeir að efnahagslega áfallið væri tímabundið og að horfa þyrfti lengra en til þriggja eða sex mánuði. Nefndi hann líkt og á síðasta vaxtaákvörðunarfundi að þetta væri ekki eins og á síðustu öld þegar síldin hvarf og var horfin í 30 ár. Þá benti hann á að Seðlabankinn væri með ógnarstóran gjaldeyrisforða og léttan efnahagsreikning og gæti brugðist við frekar ef þörf væri á. „Það er ekki von á því að það verði tíðindalaust héðan á næstu mánuðum,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK