Rétt að gera við þakið í sól en ekki þegar rignir

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði að það hafi verið hárrétt ákvörðun að byggja upp sveiflujöfnunarauka bankakerfisins undanfarin ár til að geta brugðist við núna þegar aðstæður í hagkerfinu væru erfiðar vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Á kynningarfundi bæði peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar í dag sagði hann að því hefði verið haldið fram að það hefðu verið mistök að hækka sveiflujöfnunaraukann, nú síðast í janúar/febrúar. „Það er rangt,“ sagði Ásgeir og bætti við: „Rétti dagurinn til að gera við þakið er ekki þegar það rignir heldur þegar það er sól.“

Í morgun var kynnt ákvörðun bankans að aflétta 2% kröfu um sveiflu­jöfn­un­ar­auka, en talið er að það muni hafa já­kvæð áhrif til banka og fjár­mála­stofn­ana til að auka svig­rúm til nýrra út­lána um allt að 350 millj­arða. Þá var einnig ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur eða niður í 1,75%.

„Hálfgerð megavika hjá Seðlabankanum“

Ásgeir sló á létta strengi í upphafi fundarins og sagði að uppi væri „hálfgerð megavika hjá Seðlabankanum“ þar sem báðar nefndirnar væru með kynningarfund í einu, „tvær nefndir fyrir eina“. Þá upplýsti hann að vegna virkjunar varúðarráðstafana hjá bankanum væru varaseðlabankastjórar ekki í sama rými og hann, en með honum á fundinum voru Þór­ar­inn G. Pét­urs­son­, fram­kvæmda­stjóri sviðs hag­fræði og pen­inga­stefnu og Haukur C. Bene­dikts­son, fram­kvæmda­stjóri fjár­mála­stöðug­leika­sviðs. 

Almennt er ekki upplýst strax um afstöðu einstakra nefndarmanna, en Ásgeir sagðist geta upplýst um að báðar nefndirnar hefðu verið einhuga varðandi þær ákvarðanir sem kynntar voru í morgun.

Forsenda að bankarnir greiði ekki út arð

Ásgeir sagði að ákveðin forsenda væri fyrir aðgerðum bankans í dag. Það væri að bankarnir myndu ekki greiða út arð, en aðalfundir þeirra eru haldnir í þessari viku. Sagði hann það algjört skilyrði fyrir því að eiginfjáraukanum hafi verið slakað að peningum verði haldið áfram inni í bönkunum. „Við munum fylgjast grannt með því,“ sagði Ásgeir, en stjórnir bankanna hafa undanfarið lagt til við aðalfund að ekki verði greiddur út arður.

Taldi Ásgeir jafnframt upp ástæður fyrir því að staðan hér væri þrátt fyrir allt góð. Þannig væri eiginfjárstaða bankanna um 25%. Sagði hann „þvílíkt eigið fé“ ekki þekkjast í bönkum í kringum okkur og að þeir væru í sterkri stöðu til að geta mætt þessu áfalli. Tók hann jafnframt fram mikilvægi hvatningaryfirlýsingar Landssamtaka lífeyrissjóða í gær um að lífeyrissjóðir myndu ekki kaupa gjaldeyri næstu 3 mánuði. Sagði hann slík viðbrögð vel við hæfi þegar útflutningstekjur minni, þannig að lífeyrissjóðirnir myndu taka smá hlé eftir Íslandsmet í viðskiptaafgangi í fyrra sem lífeyrissjóðirnir hafi nýtt rausnarlega til kaupa á gjaldeyri. Sagði hann að aftur kæmi að því að fullt svigrúm væri til slíkra kaupa.

Gjaldeyrisvaraforðinn kominn í 930 milljarða

Ásgeir upplýsti jafnframt að gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans í dag væri um 930 milljarðar og að hann hefði hækkað undanfarið, meðal annars vegna lækkunar vaxta erlendis þar sem bankinn ætti umtalsvert af erlendum ríkisskuldabréfum. Sagði hann að sjóðurinn hefði vaxið bæði í krónum og erlendri mynt og að það væri ólík staða því sem áður hefði verið.

„Við erum bara rétt að byrja“

Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sameinuðust nýlega og sagði Ásgeir að í hinum nýja Seðlabanka væru ótal tæki sem hægt væri að beita. „Við erum bara rétt að byrja.“ Benti hann á að erlendir seðlabankar hefðu nýtt fjölda annarra tækja, en hér á landi hefði lítið verið þörf á því, meðal annars vegna þess að vaxtastigið væri ekki enn komið niður í 0%. Sagði hann að metið yrði í ljósi þess hvernig mál þróuðust hvort og hvernig öðrum tækjum  yrði beitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK