„Stórar tölur sem hafa áhrif strax“

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Ljósmynd/Aðsend

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í morgun um að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur og að aflétta 2% kröfu um sveiflujöfnunarauka, mun hafa jákvæð áhrif strax fyrir fjármálastofnanir til að auka útlán ríflega og bregðast þannig að einhverju leyti við þeim aðstæðum sem eru uppi efnahagslega vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í samtali við mbl.is.

Samkvæmt minnisblaði sem fylgdi ákvörðun nefndarinnar mun aflétting sveiflujöfnunaraukans auka svigrúm banka til nýrra útlána um allt að 350 milljarða. „Við erum að tala um stórar tölur sem hafa áhrif strax,“ segir Jón Bjarki.

Ákall um mikið og víðtækt greiðslusvigrúm

Ákvörðunin er að hans sögn ákall til fjármálakerfisins um að veita sem mest og víðtækast greiðslusvigrúm til fyrirtækja og einstaklinga vegna aðstæðnanna.

Seðlabankastjóri hefur áður sagt að stýrivaxtabreytingar taki nokkra mánuði að skila sér út í kerfið að fullu. Jón Bjarki segir að þrátt fyrir það komi sum áhrif strax í ljós. Það eigi sérstaklega við áhrif á vaxtakjör á skammtímafjármögnun. „Þegar áhersla er lögð á að halda kerfinu vel smurðu þá skiptir enn meira máli en ella að skammtímavextir séu lækkaðir myndarlega,“ segir hann.

Ákvörðun peningastefnunefndar var gefin út í morgun og verður kynnt …
Ákvörðun peningastefnunefndar var gefin út í morgun og verður kynnt á fundi klukkan 10 í Seðlabankanum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nú hefur peningastefnunefnd Seðlabankans tvisvar gripið inn í utan hefðbundinna vaxtaákvörðunardaga og lækkað stýrivextina um samtals eitt prósentustig á vikutímabili. Jón Bjarki segir að hann telji þessa aðgerð skynsamlega og geri ekki athugasemd þó vextir séu ekki lækkaðir enn meira á þessum tímapunkti. Bendir hann á að orð peningastefnunefndar sýni að þau ætli að fylgjast vel með þróuninni og grípa inn í utan hefðbundinna vaxtaákvarðana ef þörf þyki til. Þá segir hann einnig rétt að hafa borð fyrir báru og vera ekki komin niður í 0% vexti miðað við þróun krónunnar. „Vaxtamunurinn styður við gengið rétt á meðan þessi hraða veiking er yfirstandandi.“

Fimmfalt meiri aukning í svigrúmi kerfisins

Hann segist telja atvinnulífið og markaðinn taka þessari ákvörðun fagnandi og bendir á að mjög miklu muni um sveiflujöfnunaraukann. Þannig hafi fyrri aðgerðir Seðlabankans með lækkun bindiskyldu og breyttum kröfum um hvernig hún sé tekin inn, auk færslu á fjármunum ÍL-sjóðs (gamli Íbúðalánasjóður) yfir til viðskiptabankana, skili sé í um 70 milljörðum í aukið lausafé. „Þótt þessi aðgerð núna sé ekki alveg sambærileg, þá er þetta samt sem áður fimmfalt meiri aukning í svigrúmi kerfisins,“ segir hann.

Spurður hvort þessi ákvörðun núna sé nóg til að koma atvinnulífinu í gegnum þetta tímabil segir Jón Bjarki að ljóst sé að ríkisvaldið ætli að grípa til frekari aðgerða og líklega verði það kynnt fyrir vikulok. Þá eigi eftir að koma í ljós hvað sveitarfélögin geri. Segir hann að þegar ríkið sýni spilin muni koma í ljós hvort þörf verði á öðrum aðgerðum í kjölfarið.

Hann segir hins vegar „röskleg viðbrögð“ Seðlabankans gefa sér bjartsýni um að gripið verði til frekari aðgerða jafnóðum og það skýrist hvort þörf sé á þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK