Framleiðendur LoL og a16z fjárfesta í Mainframe

Starfsmenn Mainframe í Reykjavík. Meðal stofnanda er Reynir Harðarson sem …
Starfsmenn Mainframe í Reykjavík. Meðal stofnanda er Reynir Harðarson sem var einn af stofnendum CCP og Þorsteinn Gunnarsson sem var áður yfirmaður hjá OZ og CCP og einn stofnenda Sólfars.

Finnsk-íslenska tölvuleikjafyrirtækið Mainframe hefur lokið 7,6 milljón evra, um 1,2 milljarða króna, hlutafjárútboði, en það er hvatasjóðurinn Andreessen Horowitz (a16z) sem er kjölfestufjárfestir í útboðinu ásamt Riot Games.

A16z er einn af þekktari hvatasjóðum heims, en sjóðurinn var meðal annars stór fjárfestir í Facebook og kom snemma inn í Twitter. Hefur sjóðurinn fjárfest í hundruðum nýsköpunarfyrirtækja. Riot Games er líklega þekktast fyrir að hafa gefið út leikinn League of legends (LoL), en það hefur verið einn vinsælasti tölvuleikur heims undanfarin ár, ef ekki sá vinsælasti.

Andreessen Horowitz og Riot Games hafa ekki áður fjárfest í fyrirtækjum á Norðurlöndunum, en með þessu bætast þau í hóp fyrri fjárfesta Mainframe sem eru Maki. vc, Play ventures, Crowberry capital og Sisu game ventures.

Ekki hefur verið gefið út hvað ónefndi leikurinn sem Mainframe …
Ekki hefur verið gefið út hvað ónefndi leikurinn sem Mainframe vinnur að gengur út á, en þetta er ein af tveimur myndum sem hefur verið gefin út sem sýnir umhverfi leiksins. Mynd/Mainframe

Mainframe var stofnað í fyrra, en meðal stofnenda eru reynslu­bolt­ar úr tölvu­leikjaiðnaðinum sem hafa unnið hjá CCP, Reme­dy og Next games og unnið að leikj­un­um EVE On­line, Alan Wake og The Walk­ing Dead: No man's land.

Fram­kvæmda­stjóri fé­lags­ins er Þor­steinn Gunn­ars­son, en aðrir stofn­end­ur eru Börk­ur Eiríksson, Kjart­an Pier­re Em­ils­son, Fri­drik Har­alds­son, Reyn­ir Harðar­son, Sul­ka Haro, Kristján Val­ur Jóns­son, Jyrki Korpi-Anttila, Saku Leht­in­en, Ansu Lönn­berg, Eetu Martola, Vig­fús Ómars­son og Jón Helgi Þór­ar­ins­son.

Í tilkynningu vegna útboðsins segir að fyrirtækið vinni nú að því að þróa ónefndan fjölspilaraleik (MMO) sem sé sérstaklega hannaður til spilunar í skýinu. Starfsstöðvar Mainframe eru bæði í Helsinki í Finnlandi og Reykjavík, en samtals starfa þar 20 manns.

Með spilun í skýinu verður hægt að spila leikinn frá tækjum af ýmsum stærðum og gerðum, ýmist snjallsímum, PC-tölvum og leikjatölvum, segir í tilkynningunni. Segir þar að í tileflli fjölnotendaleiks verði bæði leikjavélin og netþjónn í skýinu, en það geri spilurum kleift að nálgast og streyma leiknum með minnstri fyrirhöfn og er vísað til þess sem Netflix og Spotify hafi áður gert á þeim vettvangi fyrir myndefni og tónlist.

„Fyrir frumkvöðla skiptir öllu máli að vinna með fjárfestum sem geta lagt meira á vogarskálarnar en einungis fé sitt,“ er haft eftir Þorsteini Gunnarssyni, framkvæmdastjóra og meðstofnanda Mainframe. „Með djúpstæðri þekkingu á leikjageiranum og ótrúlegu tengslaneti sínu er vart hægt að ímynda sér betri bakhjarla en a16z og Riot í vegferð Mainframe að gera okkar sýndarheim að veruleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK