Opið fyrir viðskipti í kauphöllum

Magnús Harðarson er forstjóri Kauphallar Íslands, Nasdaq OMX Iceland.
Magnús Harðarson er forstjóri Kauphallar Íslands, Nasdaq OMX Iceland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allir markaðir Nasdaq á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum starfa eðlilega. Efst á baugi að tryggja heilsu og öryggi starfsmanna, viðskiptavina og samstarfsaðila. Þetta kemur fram í tilkynningu frá kauphallarfyrirtækinu.

„Allir hlutabréfa-, skuldabréfa- og afleiðumarkaðir Nasdaq Nordic og Baltic starfa eðlilega og halda hefðbundnum afgreiðslutímum. Kauphallir gegna mikilvægu hlutverki í hagkerfinu. Á óvissutímum er sérstaklega mikilvægt að bjóða upp á vettvang þar sem fjárfestar eiga kost á að stýra áhættu með kaupum og sölu og þar sem fyrirtæki, ríki og sveitarfélög geta haldið áfram að afla fjár,“ segir í tilkynningu.

Nasdaq er með öflugar viðbragðsáætlanir sem taka á ýmsum óvæntum atburðum eða aðstæðum, þar á meðal heimsfaraldri. Nauðsynleg starfsemi, svo sem rekstur viðskiptakerfisins og eftirlit, hefur verið prófuð við ýmsar aðstæður með góðum árangri. Nasdaq er stöðugt að endurskoða viðbragðsáætlanir sínar og aðlaga þær, í samræmi við örar breytingar í umhverfinu.

Til að tryggja öryggi starfsmanna og áframhaldandi starfsemi hefur starfsfólk Nasdaq ýmist unnið að heiman, í aðskildum hópum eða á aðskildum vöktum frá því 9. mars, segir enn fremur í tilkynningu.

Nasdaq hefur ákveðið að hafa einungis tilteknar skrifstofur opnar viðskiptavinum, í varúðarskyni. Öllum viðburðum sem halda átti á skrifstofum Nasdaq innan Evrópu hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

„Okkur er umhugað um heilsu og öryggi starfsfólks, viðskiptavina og samstarfsaðila okkar sem og að leggja okkar af mörkum við að hefta útbreiðslu COVID-19,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, í tilkynningu. „Við leggjum mikla áherslu á að Kauphöllin starfi áfram með eðlilegum hætti. Kauphallir gegna mikilvægu hlutverki í hagkerfinu og við munum halda áfram að vinna náið með viðskiptavinum okkar og eftirlitsaðilum til þess að tryggja hnökralausan rekstur markaðarins á þessum erfiðu tímum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK