Heimavellir bjóða upp á helmingsgreiðslufrest

Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla.
Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla. mbl.is/Eggert

Leigufélagið Heimavellir hefur ákveðið að koma til móts við þá leigjendur sem lenda í erfiðleikum með að standa skil á greiðslu húsaleigu á næstu mánuðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Segir þar að fyrirkomulagið verði með þeim hætti að þeir sem verði atvinnulausir eða þurfi að taka á sig skert starfshlutfall geti sótt um greiðslufrest á hluta húsaleigu sem jafngildi sömu krónutölulækkun og ráðstöfunartekjur lækki vegna breytingar á atvinnuhögum þeirra.

Bent er á að greiðslufresturinn geti varað í allt að sex mánuði og verði að hámarki 50% af húsaleigu hvers mánaðar frestað. Eftirstöðvum leigunnar verði þá hægt að dreifa yfir allt að 24 mánaða tímabil að greiðslufrestinum liðnum.

Mikilvæg til að styðja við leigjendur

Úrræðið bjóðist öllum leigjendum sem uppfylli þau skilyrði sem nánar verði tilgreind á heimasíðu félagsins.

Haft er eftir Arnari Gauta Reynissyni framkvæmdastjóra að Heimavellir leggi mikið upp úr húsnæðisöryggi leigjenda.

„Við teljum að okkar úrræði séu mikilvæg til þess að styðja við leigjendur á næstu mánuðum og tryggja þannig örugga búsetu fólks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK