Horfur lánshæfismats metnar neikvæðar

Ísland er talið berskjaldað fyrir áhrifum faraldursins.
Ísland er talið berskjaldað fyrir áhrifum faraldursins. mbl.is/Ófeigur

Matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur breytt horfum fyrir lánshæfismat ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar. A-lánshæfiseinkunn ríkissjóðs var staðfest og er því óbreytt.

Endurmat á horfum úr stöðugum í neikvæðar endurspeglar veikari hagvaxtarhorfur, áhrif kórónufaraldursins á fjármál hins opinbera og hættu á að áhrif veirunnar á efnahagslíf reynist enn meiri en nú er vænst, að því er segir á vef Stjórnarráðsins, þar sem greint er frá matinu.

Matsfyrirtækið telji Ísland berskjaldað fyrir áhrifum faraldursins og að útlit sé fyrir skarpan efnahagssamdrátt, versnandi afkomu hins opinbera og markverða hækkun skulda.

„Staða Íslands var sterk í aðdraganda Covid-19-áfallsins að mati Fitch Ratings; afgangur hefur verið af rekstri hins opinbera og skuldastaða þess orðin lág, efnahagsreikningar heimila eru sterkir og gjaldeyrisforði þjóðarbúsins stór,“ segir á vef Stjórnarráðsins.

Gætu lækkað ef niðursveiflan verður alvarlegri

„Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs gætu hækkað ef væntingar styrkjast um að hagkerfið komist hjá langvinnum erfiðleikum í kjölfar áfallsins sem nú ríður yfir, t.a.m. ef dregur úr óvissu um stöðu helstu útflutningsgreina og með aukinni tiltrú á að böndum verði komið á skuldasöfnun hins opinbera til meðallangs tíma.

Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs gætu lækkað ef niðursveiflan verður alvarlegri og langvinnari en reiknað er með, ef ekki tekst að koma böndum á skuldasöfnun hins opinbera til meðallangs tíma, eða ef verulegt fjármagnsútflæði yrði sem ógnað gæti fjármálastöðugleika og dregið úr viðnámsþrótti til að bregðast við ytri áföllum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK