Gefa brauðstangir til stuðnings máli sínu

Ummæli Þórarins Ævarsson, eiganda pítsustaðarins Spaðans, um verð á brauðstöngum …
Ummæli Þórarins Ævarsson, eiganda pítsustaðarins Spaðans, um verð á brauðstöngum helsta samkeppnisaðilans, Domino‘s, hefur leitt til þess að Domino‘s ætlar að gefa 790 brauðstangir, sem er einmitt það sem stór skammtur af slíkum kostar. Ljósmynd/Facebook

Domino‘s, risinn á íslenska pítsumarkaðnum, býður nú fylgjendum sínum á Facebook að merkja vini sína í þeirri von að vinna 11 skammta af brauðstöngum. Tildrög leiksins eru án efa ummæli Þórarins Ævarssonar, eiganda pítsustaðarins Spaðans, í Morgunblaðinu fyrir helgi þar sem hann furðaði sig á því að hans helsti keppinautur gæti veitt 50% afslátt af pítsum. 

Þórarinn nefndi ekki einungis verð á pítsum heldur sagði hann brauðstangir hafa lækkað í verði frá því að Spaðinn opnaði. Þórarinn hefur fylgst grannt með verðlagi keppinautarins, m.a. með því að sanka að sér matseðlum síðustu missera. Fullyrti hann að skammturinn af brauðstöngum hjá  Domino‘s hefði kostað 1.030 krónur í fyrra en hefðu nú lækkað í 790 kr. eftir opnun Spaðans. 

Anna Fríða Gísladóttir, markaðsstjóri Domino‘s, segir fullyrðingu Þórarins um brauðstangirnar ranga. Í Facebook-leiknum sem hrundið var af stað í dag kemur fram að Domino‘s ætlar að gefa 790 skammta af brauðstöngum. „Af hverju 790? Því það er einmitt verðið á stórum skammti á brauðstöngum og þó sumir muni verr en aðrir er þetta sama verð og í fyrra,“ segir í færslunni ásamt blikkkarli. 

Leikurinn fer þannig fram að notendur merkja vini sína við færsluna og verða 11 þeirra dregnir út sem vinna 11 skammta, á mann, af stórum brauðstöngum, samtals 790 brauðstangir. 

Það er því aldeilis að færast fjör í leikana á pítsumarkaðnum. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði einmitt í samtali við mbl.is fyrr í dag að samtökin fagni allri samkeppni, ekki síst ef hún er til þess fallin að lækka verð. Nú virðist samkeppnin vera að gera gott betur en það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK