„Tíminn sem fyrirtæki framtíðarinnar verða til“

Guðmundur Hafsteinsson er stjórnarformaður Icelandic Startups, fyrrverandi yfirmaður þróunar Siri, …
Guðmundur Hafsteinsson er stjórnarformaður Icelandic Startups, fyrrverandi yfirmaður þróunar Siri, yfirmaður þróunar á fyrstu útgáfu Google maps fyrir farsíma og stofnandi EMU, sem þróaði raddstýringarbúnað sem Google síðar keypti og stýrði hann þróun á búnaði sem síðar varð að Google Assistant. Þá er Guðmundur einnig í stjórn Icelandair og í fjárfestingaráði Crowberry capital. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstu árin eftir fjármálahrunið árið 2008 fór nýsköpunargeirinn hér á landi á flug og fjöldi fyrirtækja varð til sem mörg hver eru orðin að stöndugum fyrirtækjum núna rúmlega áratugi síðar. Guðmundur Hafsteinsson hefur mikla reynslu af þessum geira í Bandaríkjunum, meðal annars með því að hafa komið að þróun á þekktum vörum hjá Google og Apple. Hann segir að tíminn núna sé svipaður og eftir hrunið 2008 og að í slíku umhverfi verði til nýjar hugmyndir og fyrirtæki framtíðarinnar.

Í dag rennur út frestur til að sækja um í viðskiptahraðalinn Startup SuperNova, en það er Icelandic startups og fjarskiptafyrirtækið Nova sem standa á bak við verkefnið. Þau tíu fyrirtæki sem eru valin til þátttöku fá eina milljón, vinnuaðstöðu og þjálfun og ráðgjöf frá reyndum frumkvöðlum og fjárfestum. Guðmundur flutti heim til Íslands eftir 15 ár í Bandaríkjunum síðasta vor og er nú stjórnarformaður Icelandic startups.

„Tilgangurinn er að taka fyrstu skrefin markvisst

Hann segir að sprotafyrirtæki og frumkvöðlar séu grundvöllurinn fyrir efnahagsuppbyggingu. Þar sé hugmyndum velt af stað sem síðar verði að nýjum vörum eða þjónustu. Hins vegar sé galli á gjöf Njarðar að litlir sprotar eigi það til að vera „viðkvæm blóm“, enda sé óvissan mikil og margir að taka sín fyrstu skref á alveg nýjum vettvangi.

Guðmundur segir að viðskiptahraðall eins og Startup SuperNova sé einmitt hugsaður fyrir fólk í slíkum aðstæðum, bæði til að hraða lærdómsferilinn og leiðbeina fólki áfram af fólki sem hafi sjálft áður tekið þessi skref og rekið sig á. „Tilgangurinn er að taka fyrstu skrefin markvisst. Þarna færðu ákveðna flýtimeðferð,“ segir Guðmundur og bætir við: „Fyrir þá sem eru að fara í gegnum þetta í fyrsta skiptið getur verið sérstaklega mikilvægt að geta til dæmis tekið 15 mínútna samtal við einhvern til að fá upplýsingar, sem annars hefði tekið mjög langan tíma að finna svör við.“

„Þrjósku elementið“ mikilvægast

En hverjir eru það sem stökkva út í frumkvöðlastarf og stofna fyrirtæki til að fara í viðskiptahraðla? Guðmundur segir að sín reynsla sé að það sé fólk frá öllum bakgrunnum. „Það er hættulegt að halda að þetta sé einhver ákveðinn prófíll, fólk með ákveðna menntun eða bakgrunn,“ segir hann. „Það sem er þó sameiginlegt hjá þeim sem gengur vel að koma einhverju á laggirnar er þrjósku-elementið. Að ætla að keyra þetta í geng af krafti og ná sínu markmiði,“ bætir hann við. Það sé drifkrafturinn sem skipti öllu máli frekar en hvaðan úr þjóðfélaginu fólk komi.

Það hefur lengi loðað við nýsköpunargeirann að þar geti fólk náð ævintýralegum árangri á skjótan hátt. Við höfum öll heyrt um tæknifyrirtækin í Kísildal sem urðu mörg hundruð milljóna króna, jafnvel margra milljarða virði og gerðu stofnendur þeirra gríðarlega ríka. Guðmundur segir að þrátt fyrir þessar sögur þurfi fólk að átta sig á því að það að koma frumkvöðlafyrirtæki af stað sé mjög erfitt. „En það er líka skemmtilegt,“ bætir hann við. Bendir Guðmundur á að flest fyrirtæki eigi sér lengri sögu en flestir telji. Þannig hafi til dæmis fjarfundafyrirtækið Zoom verið stofnað fyrir 9 árum, en það hafi ekki verið fyrr en í ár sem það virkilega sprakk út vegna faraldursins.

Ekki búast við hálaunastarfi

Hann segir að fólk þurfi hins vegar ekki að fórna öllu til að elta drauma sína og hugmyndir. Stuðningskerfið sé nokkuð öflugt og ef um sé að ræða hugmynd sem aðrir hafi trú á sé jafnan hægt að tryggja fjármagn til starfsins. „Þú ert ekki tekjulaus í langan tíma, en þú ert heldur ekki að fara að vera hálaunamanneskja í þessum geira,“ segir Guðmundur.

Spurður út í hvaða hugmyndir og geirar séu vænlegastir til að ná árangri hér á landi segir Guðmundur að hann telji að allt sem komi að hugviti, hvort sem það er í líftæknigeiranum, heilsuþjónustu, hugbúnaðargerð eða öðru slíku komi sterkt inn í litlu samfélagi eins og hér. Segir hann að fyrirtæki í framleiðslu séu erfiðari viðfangs vegna smæðarinnar, jafnvel þótt hér séu dæmi um slík fyrirtæki.

„Bara strákur sem er fæddur á Húsavík og alinn upp í Breiðholti“

„Ég hvet fólk bara að hugsa nógu andskoti stórt,“ segir Guðmundur. „Hver og einn sem er með góða hugmynd getur breytt heiminum.“ Það er ekki ofsögum sagt komandi frá honum, en Guðmundur hefur meðal annars á sínum ferli komið að vöruþróun á Google Maps fyrir farsíma, þróun á Siri, sem Apple keypti síðar og við vöruþróun á sýndarstjórnunartæki undir merkjum EMU, sem síðar var keypt af Google og varð að Google Assistant. Mörg hundruð milljón manns nýta sér þessar lausnir daglega. „Samt er ég bara strákur sem er fæddur á Húsavík og alinn upp í Breiðholti,“ segir hann og vísar til þess að allir geti haft áhrif út fyrir sitt nærumhverfi.

Nýjar hugmyndir spretta upp eftir svona hikst

Efnahagslíf heimsins hefur orðið fyrir talsverðu áfalli í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar og sóttvarnaviðbragða hér á landi eins og annars staðar í heiminum. Spurður hvort jarðvegurinn núna sé eitthvað í líkingu við það sem hann var eftir fjármálahrunið segir Guðmundur afdráttarlaust: „Já ég held það.“

„Þegar það kemur svona hikst þá spretta upp nýjar hugmyndir. Núna er tíminn sem fyrirtæki framtíðarinnar verða til,“ segir Guðmundur. „Fólk finnur á svona tímum leiðir til að gera eitthvað betra en gert var áður og ný tækifæri koma í ljós.“

„Við vanmetum hversu stórt tækifæri þetta er í raun“

Guðmundur segir augljósasta dæmið þessa stundina vera fjarvinnu og þá möguleika sem hún hafi í för með sér. Bendir hann á að þetta sé sérstaklega mikilvægt fyrir lítinn markað eins og Ísland með vinnumarkað upp á um 200 þúsund manns. Núna þegar bæði fyrirtæki og einstaklingar samþykki fjarvinnu miklu frekar sé mun einfaldara að sækja sérhæfða þekkingu erlendis, meðan sá hópur hafi áður fyrr verið mjög takmarkaður hér á landi.

„Við vanmetum hversu stórt tækifæri þetta er í raun. Við erum kannski ekki alveg komin í Kísildalinn, en þetta er gríðarlega stórt skref,“ segir hann.

En það er ekki bara að sækja sérfræðiþekkinguna hjá fólki sem býr erlendis. Guðmundur segir að mikil tækifæri séu til staðar fyrir Ísland þegar komi að því að fólk flytji hingað til að vinna svo fjarvinnu hjá erlendum fyrirtækjum. Nefnir hann að hér ríki mikill stöðugleiki, það þyki gott að ala upp börn hér á landi, það sé friðsælt o.s.frv. Segir hann fjarvinnumöguleikann í raun „fletja út jörðina“ þegar komi að tækifærum.

Markmiðið ekki endilega að halda í fyrirtækin

Eins og fyrr segir hafa á undanförnum árum þó nokkur fyrirtæki orðið til í gegnum nýsköpunarumhverfið. Sum eru enn starfandi í dag, önnur hafa verið sameinuð inn í eldri fyrirtæki og þá eru einnig nokkur dæmi um fyrirtæki sem hafa verið seld úr landi, jafnvel með manni og mús. Spurður út í hvernig best sé að halda í nýsköpunarfyrirtæki segir Guðmundur að það eigi ekki endilega alltaf að vera markmiðið.

Nefnir hann Svíþjóð sem dæmi. Þar hafi þetta komið í þremur kynslóðabylgjum. Fyrsta kynslóð þessara alþjóðlegu frumkvöðla hafi öll flutt utan. Næsta kynslóð sem fór út í heim hafi svo komið heim aftur eftir að hafa vegnað vel úti í heimi og safnað að sér reynslu. Þriðja kynslóðin, sem nú sé að byggja upp fyrirtæki, hafi aftur á móti byggt þau upp í Svíþjóð, því umhverfið þar sé orðið nægjanlega gott til þess. Nefnir hann sem dæmi Spotify sem sé með sínar aðalstöðvar í heimalandinu.

Segir Guðmundur að flestir sem flytji út fái heimþrá á einhverjum tímapunkti og vilji koma heim. Sé umhverfið heima rétt komi margir aftur heim með reynsluna og jafnvel fjármagn til að fjárfesta svo enn frekar í nýsköpun. „Það er miklu verðmætara til lengri tíma að þessi fyrirtæki verði til en að halda þeim endilega heima. Það þarf frekar að hafa hér gott og jákvætt umhverfi og svo mun þetta lagast sjálfkrafa með komandi kynslóðum,“ segir hann.

Þurfa að geta hreyft sig hratt

Í þessu sambandi segir Guðmundur að fólk þurfi einnig að átta sig á að flest störf verði til hjá litlum fyrirtækjum og því þýði eitt stórt fyrirtæki að miklu fleiri lítil fyrirtæki verða til. Segir hann að langtímamarkmið hér á landi ætti að vera að 1-2 vænleg stærri fyrirtæki komist á laggirnar. „Við erum ekki enn komin þangað, en það mun koma að því,“ segir hann bjartsýnn og segir að slíkt ætti að vera á tíu ára plani.

En til að gera landið bæði ákjósanlegt fyrir frumkvöðlastarfsemi sem og erlenda sérfræðinga segir Guðmundur að umhverfið verði að bjóða upp á að hægt sé að hreyfa sig hratt og að ekki séu óþarfa boð og bönn sem stoppi allt. Þannig gefi Ísland sig út fyrir að vera mjög framsækið og opið land, en það eigi þó alls ekki alltaf við. „Land sem bannar Über [leigubílaþjónustuna] getur ekki sagt að þetta sé á borði,“ segir hann.

„Það þarf að leyfa börnum meira að prófa og fikta“

Í tengslum við nýsköpun hefur oft verið komið inn á menntunarþörf og hvort beina eigi nemendum sérstaklega í einhverja ákveðna átt. Þannig hefur lengi verið talað um að skortur sé á tæknimenntuðu fólki og forriturum. Guðmundur segir að frá sínum bæjardyrum séð sé stóra málið að endurbyggja menntakerfið þar sem áhersla sé á innihaldið frekar en formið.

„Menntakerfi vesturlanda er orðið úrelt, sérstaklega þegar kemur að tækni,“ segir Guðmundur. „Það þarf að leyfa börnum meira að prófa og fikta. Læra með að mistakast og lenda á veggjum.“ Segir hann að þetta sé meðal annars hægt með svokölluðum fablab-smiðjum.

Segir hann sína reynslu, meðal annars úr kennslu við háskóla, vera þá að nemendur hafi mestar áhyggjur af forminu og hvaða kröfur þurfi að uppfylla frekar en að það sé tilbúið að taka sénsa til að leysa vandamál framtíðarinnar. „Ef þú fylgir bara tékklistum þá finnur þú lausnir við vandamálum sem hafa verið leyst. Það eru vandamál fortíðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK