Er best heima?

Hans Henrik Merckoll, forstjóri IBM í Noregi, kveður heimaskrifstofuna tvíeggjað …
Hans Henrik Merckoll, forstjóri IBM í Noregi, kveður heimaskrifstofuna tvíeggjað sverð, sveigjanleiki sé af hinu góða en ekki megi vanmeta þá fornu speki Hávamála að maður er manns gaman. Ljósmynd/IBM

„Sveigjanleiki er jákvæður, en gleymum ekki hlutverki vinnustaðarins hvað félagsskap, andagift og hvatningu snertir,“ skrifar Hans Henrik Merckoll, forstjóri alþjóðlega tæknifyrirtækisins IBM í Noregi, í aðsendri grein í norska viðskiptavefritinu E24.

Bendir Merckoll á að fyrirtæki hans eigi sér langa og farsæla sögu um heimavinnandi starfsfólk en hvað sem því líði snúist hinn hefðbundni vinnustaður um annað og meira en verðmætasköpun og framleiðni. Bendir hann þar meðal annars á félagslegt hlutverk vinnustaðarins þar sem liðsheildir verði til og vinnufélagar skiptist á hugmyndum í amstri dagsins.

„Vinnustaðurinn er mörgum sem framlenging fjölskyldunnar og það samspil sem myndast þar sem manneskjur koma saman geta tæknilegar lausnir ekki alltaf leyst af hólmi,“ skrifar Merckoll.

Norska dagblaðið VG fjallar um hugleiðingar IBM-forstjórans og kannar fleiri hugi, stjórnenda sem sérfræðinga, gagnvart heimaskrifstofunni, eða hjemmekontor sem Norðmenn kalla, sem hefur verið raunveruleiki milljóna um gervalla heimsbyggðina síðan snemma á árinu.

Mikill sveigjanleiki hjá Telenor

„Margt okkar starfsfólks, raunar stór hluti þess, mun áfram gegna sínum störfum á skrifstofunni, einmitt vegna þessara þátta, félagsskaparins og skapandi samneytis við aðrar manneskjur sem eru svo mikilvægar burðarstoðir vinnudagsins,“ segir Sigve Brekke, forstjóri fjarskiptafyrirtækisins Telenor. Hann segir framtíðarútfærslu vinnustaða Telenor munu gera ráð fyrir að samstarfsfólk komi saman og starfi saman.

Segir hann Telenor þó bjóða starfsfólki sínu sveigjanleika til að starfa þar sem hver og einn telji sér best henta og á þar meðal annars við heimilið. Minnir Brekke þó á að þeir 19.000 starfsmenn sem fyrirtækið hefur á að skipa standi ekki frammi fyrir því að velja hvort þeir ætli sér að vinna heima eða á vinnustaðnum. Fólki sé í sjálfsvald sett að flytja starfsstöð sína milli heimilis og vinnustaðar að vild.

„Fáir ef nokkrir kjósa að vera bara heima,“ segir Brekke, „sértu of heimakær verðurðu af félagslegum tengslum við aðra. Sé ætlunin að byggja upp vinnustaðamenningu og gott andrúmsloft verða félagsleg samskipti fólks að vera til staðar.“

Ýmislegt þurfi að hugsa upp á nýtt

Sérfræðingar í vinnurétti telja langtímaheimavinnulausnum, eins og Telenor og fleiri stórfyrirtæki í Noregi bjóða nú í æ ríkari mæli upp á í kjölfar heimsfaraldursins, fylgja þó nokkrar áskoranir. Fredrik Bjercke Punsvik og Hans Jørgen Bender á lögmannsstofunni Selmer í Ósló segja regluverk vinnumarkaðarins enn sem komið er ekki í stakk búið fyrir heimaskrifstofur í stórum stíl.

„Ætli fólk sér að nýta heimili sitt sem vinnustað yfir lengri tímabil þarf að hugsa ýmsa ferla upp á nýtt svo tilhlýðilegt starfsumhverfi sé tryggt,“ segja þeir Punsvik og Bender í skriflegu svari sínu til VG. „Núverandi regluverk er að mjög litlu leyti sniðið að tækni og atvinnumynstri nútímans og er að mörgu leyti ábótavant.“

Taka lögmennirnir sem dæmi að í raun þurfi að gera sérstakan ráðningarsamning sé ætlunin að starfsmaður vinni eingöngu heima hjá sér. Vinnuveitandi geti ekki neytt starfsmann til að vinna heima til frambúðar gegn vilja starfsmanns og á hinn bóginn geti starfsmaður heldur ekki krafist þess að vinna eingöngu heima án þess að um það sé sérstaklega samið.

Vinnuumhverfi heima fyrir viss áskorun

Hver er til dæmis ábyrgð vinnuveitanda slasist starfsmaður á heimili sínu á vinnutíma? „Slysatrygging vinnuveitanda gildir einnig við vinnu á heimili, því sló ríkisstjórnin föstu í upphafi faraldursins. Vinnuveitanda er þó rétt að athuga nákvæmlega hvar hann stendur að þessu leyti gagnvart sínu tryggingafélagi,“ segja Punsvik og Bender.

Vinnuumhverfi heima fyrir er einnig viss áskorun. Hér segja lögmennirnir nokkra samvinnu þurfa að eiga sér stað. Vinnuveitanda sé rétt að leggja ákveðna upplýsingaskyldu á starfsfólk sitt sem á móti sé skylt að fylgja settum reglum um daglegar rútínur á borð við vinnutíma. Í mörgum tilfellum verði vinnutími sveigjanlegri. „Hér er annað dæmi um svið sem krefst skýrs samkomulags. Væntingar um gagnkvæman aðgang vinnuveitanda og starfsmanns þurfa að vera á hreinu,“ segja lögmennirnir.

Þeir benda á að norsku starfsmannalögin, arbeidsmiljøloven, gangi að langmestu leyti út frá þeirri forsendu að vinna sé innt af hendi á sérstökum vinnustað þar sem verkstjórn og önnur stjórnun fari einnig fram.

„Stærsta vandamálið er ef til vill að hafa eftirlit með vinnutíma, hvort tveggja því hvort starfsfólk vinni of mikið eða of lítið,“ segja Punsvik og Bender að lokum.

Vilja fasta heimadaga í Ósló

Mari Holm Ingelsrud, rannsakandi við Vinnurannsóknamiðstöð Oslo Met (Oslo Metropolitan University, áður Háskólann í Ósló og Akershus), tekur í sama streng og lögmennirnir.

„Viðvarandi heimavinna lýtur eigin reglugerð um störf sem starfsmaður innir af hendi á heimili sínu,“ bendir Ingelsrud á. Sú reglugerð gildi hins vegar ekki þegar um sé að ræða styttri eða tilfallandi heimavinnu og vísar hún þar til kórónuveirunnar. „Ætli fyrirtæki sér nú að fara að hafa starfsfólk sitt heimavinnandi í stórum stíl táknar það breyttar kröfur, hvort tveggja til vinnuveitenda og starfsfólks,“ segir hún.

Í lok maí greindi VG ásamt fleiri norskum fjölmiðlum frá því að borgarstjórnarflokkur Høyre-flokksins í Ósló vildi koma á föstu fyrirkomulagi heimavinnu nokkra daga í viku fyrir 53.000 starfsmenn borgarinnar.

Talaði Nicolai Øyen Langfeldt, varaformaður samgöngu- og umhverfisnefndar Óslóar, fyrir þessari hugmynd og sagði slíkt fyrirkomulag til þess fallið að létta á þeirri umferðarteppu sem tæplega 700.000 íbúar höfuðborgarinnar þekkja mætavel á morgnana og síðdegis. Sagði hann að með aukinni heimavinnu drægi úr skattheimtu á borð við vegtolla, sem eru með umdeildari sköttum Noregs, auk þess sem fyrirkomulagið væri streitulosandi og gæti þar með dregið úr veikindaforföllum.

Sagði Langfeldt að horfa mætti til þess að tíundi hluti borgarstarfsmanna gæti unnið heiman frá ákveðna daga. Staðan nú væri þannig að almennt væru að meðaltali níu prósent þeirra veik heima hjá sér. Það hlutfall mætti hugsanlega minnka.

Dagsavisen

E24

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK