Rautt á hlutabréfamörkuðum vegna næstu bylgju

Það var rautt þema í kauphöllinni í Tókýó eftir opnun …
Það var rautt þema í kauphöllinni í Tókýó eftir opnun markaða. AFP

Gengi bréfa á hlutabréfamörkuðum í Evrópu féll nokkuð við opnun markaða í morgun og er það talið merki um að fjárfestar séu farnir að óttast seinni bylgju kórónuveirunnar sem gæti sett ris efnahagsins í uppnám.

FTSE 100-vísitalan féll um 2,2% í 5.970,86 punkta. Þýska vísitalan DAX 30 féll um 2,7% í 11.630,85 punkta og Parísarvísitalan CAC 40 féll einnig um 2,7% í 4.707,4 punkta.

Ítalska FTSE Mib féll sömuleiðis um 2,7% í 18.386,29 punkta og spænska IBEX-35-vísitalan féll um 3% í 7.077 punkta.

Ástæðan er sú að á sama tíma og ríki innan Evrópu aflétta samkomutakmörkunum og opna landamæri virðist sem svo að ný bylgja faraldursins sé að skjóta upp kollinum í Kína. Hópsýking kom upp um helgina í Peking og þar hafa hátt í 200 manns greinst með veiruna.

„Fjárfestar eru að átta sig á hættunni á að önnur bylgja sé að koma og efnahagstjóninu sem myndi fylgja henni,“ segir greiningaraðilinn Fiona Cincotta við AFP.

Asíumarkaðir lækkuðu töluvert

Hlutabréfamarkaðurinn í Tókýó féll um 3,5% við opnun markaða og í Seoul í Suður-Kóreu féll markaðurinn um nærri fimm prósentustig. Markaðir í Hong Kong, Singapúr, Bangkok, Sydney í Ástralíu og Mumbai á Indlandi féllu um 2%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK