Ísland fellur um eitt sæti

Skilvirkni atvinnulífs heldur áfram að hækka og er Ísland þar …
Skilvirkni atvinnulífs heldur áfram að hækka og er Ísland þar í 15. sæti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland fellur um eitt sæti á lista IMD-viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni ríkja og er í 21. sæti, mitt á milli Kína og Nýja-Sjálands. Eftir hækkun um fjögur sæti árið 2019 eru vonbrigði að sú þróun hafi ekki haldið áfram, að því er segir í tilkynningu frá Viðskiptaráði Íslands.

Í efnahagslegri frammistöðu lækkar Ísland úr 54. sæti í 58. sæti og skrifast það að miklu leyti á kólnun hagkerfisins 2019 og verri atvinnuhorfur. Hvað skilvirkni hins opinbera varðar lækkar Ísland um tvö sæti í það 17. Ástæðan er samspil nokkurra þátta, t.d. lakari afkomu hins opinbera og verra mats á regluverki.

Skilvirkni atvinnulífs heldur áfram að hækka og er Ísland þar í 15. sæti, sem öðru fremur má þakka hærra mati á stjórnarháttum. Loks fellur Ísland aftur niður í 17. sæti í flokki innviða vegna samspils ólíkra þátta þar sem Ísland hækkar þrátt fyrir allt í þremur af fimm undirflokkum.

Singapúr heldur toppsætinu

Singapúr heldur toppsæti sínu í samkeppnishæfni, en landið hefur um árabil verið mörgum fyrirmynd þegar kemur að samkeppnishæfni, t.d. hvað varðar alþjóðaviðskipti, menntun og tæknivæðingu, að því er segir í tilkynningu Viðskiptaráðs, en næst á eftir Singapúr kemur Danmörk, sem hækkar um 6 sæti í það 2. vegna sterkrar stöðu hagkerfisins. Þar á eftir koma Sviss (3. sæti), Holland (4. sæti) og Hong Kong (5. sæti).

Hin Norðurlöndin hækka og eru ofar Íslandi

Á hæla Hong Kong koma Svíþjóð (6. sæti) og Noregur (7. sæti) sem hækka um nokkur sæti á listanum og þá er Finnland í 15. sæti og hækkar um tvö sæti.

„Þetta þýðir að Norðurlöndin eru öll ofar á listanum en Ísland og hækka á meðan Ísland lækkar. Ísland hefur sjaldan eða aldrei dregist jafn mikið aftur úr Norðurlöndunum og stendur Ísland þeim að baki í flestum undirþáttum. Verður það að teljast talsvert áhyggjuefni þar sem við viljum almennt bera okkur saman við hin Norðurlöndin,“ segir í tilkynningu Viðskiptaráðs.

Hægt er að horfa á blaðamanna- og kynningarfund Viðskiptaráðs vegna samkeppnishæfni Íslands hér að neðan, en hann hefst kl. 9.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK