Hið opinbera í bílstjórasætinu

Þrátt fyrir að áfallið sé mikið og opinber fjármál verði …
Þrátt fyrir að áfallið sé mikið og opinber fjármál verði þanin til hins ýtrasta er að finna smá ljós í myrkrinu í tillögunum um breytingar á fjármálastefnunni, að því er segir í Hagsjánni. mbl.is/Árni Sæberg

Hagfræðideild Landsbankans segir að hið opinbera sé nú í bílstjórasætinu hvað hagstjórn varðar og verði það á næstu árum. Það ættu því að vera góð skilyrði fyrir stjórnvöld að koma stefnumiðum sínum í framkvæmd.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá bankans, þar sem fjallað er um breytingar á fjármálastefnu stjórnvalda. 

Tekið er fram að forsendur gildandi fjármálastefnu séu brostnar og Alþingi fjalli nú um breytingar á stefnunni fyrir árin 2018-2022.

Dýpsta efnahagslægð sem sést hefur um langa hríð

„Þetta er í annað skipti sem breytingar eru gerðar á fjármálastefnu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Sú fyrri var gerð þegar blikur fóru að sjást varðandi hagkerfið á síðasta ári. Nú er endurskoðun nauðsynleg vegna dýpstu efnahagslægðar sem sést hefur um langa hríð,“ segir í Hagsjánni. 

Forsendur gildandi fjármálastefnu eru brostnar og Alþingi fjallar nú um …
Forsendur gildandi fjármálastefnu eru brostnar og Alþingi fjallar nú um breytingar á stefnunni fyrir árin 2018-2022. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bent er á, að samkvæmt tillögu að fjármálaáætlun stefni í að halli hins opinbera verði 12,5% af landsframleiðslu í ár. Vikmörk á óvissusvigrúmi í stefnunni hafi verið aukin og séu vikmörkin tekin með gæti hallinn í ár numið 14,5% af landsframleiðslu. Reiknað sé með að dragi úr hallanum á næstu árum og hann verði kominn í u.þ.b. 10% af landsframleiðslu árið 2022.

Þá segir, að hlutverk hins opinbera í hagstjórn og efnahagslífinu verði mikið á næstu árum, og á það einkum við um ríkissjóð.

Smá ljós í myrkrinu

„Þrátt fyrir að áfallið sé mikið og að opinber fjármál verði þanin til hins ýtrasta er að finna smá ljós í myrkrinu í tillögunum um breytingar á fjármálastefnunni.

Í greinargerð með tillögunum segir að í öllum áföllum skapist tækifæri til umbóta og nýsköpunar. Þar segir einnig að stjórnvöld ætli sér að skapa skilyrði fyrir nýju vaxtar- og framfaraskeiði í verðmætasköpun efnahagslífsins með umfangsmiklu framkvæmdaátaki og arðbærum fjárfestingum í menntun, rannsóknum, nýsköpun, grænum lausnum og stafrænni opinberri þjónustu.

Hagfræðideild Landsbankans segir að það ættu að vera góð skilyrði …
Hagfræðideild Landsbankans segir að það ættu að vera góð skilyrði fyrir stjórnvöld að koma stefnumiðum sínum í framkvæmd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá má einnig benda á að fjármögnunarkjör ríkissjóðs eru nú með lægsta móti þannig að hallarekstur í nokkur misseri er ódýrari en oft hefur verið. T.d. er raunávöxtunarkrafan á verðtryggðum ríkisbréfum til sex ára nú orðin neikvæð.

Segja má að hið opinbera sé nú í bílstjórasætinu hvað hagstjórn varðar og verði það á næstu árum. Það ættu því að vera góð skilyrði fyrir stjórnvöld að koma stefnumiðum sínum í framkvæmd,“ segir í Hagsjá Landsbankans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK