Í hverju felst munurinn?

mbl.is/Sigurður Bogi

Munurinn á óverðtryggðum lánum og verðtryggðum er í grunninn sá að allar verðlagsbreytingar leggjast ofan á verðtryggð lán en ekki á þau óverðtryggðu. Óverðtryggð lán eru því varin gegn verðbólgu.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fjallar um lánin á heimasíðu sinni. 

„Það er ekki þar með sagt að verðbólga hafi engin áhrif á óverðtryggð lán heldur taka vextir á þeim tillit til verðbólguvæntinga. Ef verðbólguvæntingar hækka getur það leitt til hærri vaxta og þannig getur greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum hækkað sömuleiðis. Aukin verðbólga hefur því áhrif á greiðslubyrðina á óverðtryggðum lánum en einkum á skuldastöðuna á verðtryggðum en minni áhrif á greiðslubyrðina. Ekki er hægt að fullyrða um að annar kosturinn sé betri en hinn enda fer það bæði eftir vaxtakjörum og eftir því hver verðbólgan verður í framtíðinni. Í gegnum tíðina hafa skipst á tímar þar sem verðtryggð lán og óverðtryggð hafa verið hagkvæmari.

Ákvarðanir um breytilega vexti eru teknar mánaðarlega og því geta þeir breyst með skömmum fyrirvara. Til að verja sig gegn þessum sveiflum eru nokkrir kostir í boði. Hægt er að velja fasta vexti en þeir eru hérlendis í boði annaðhvort fastir til þriggja eða fimm ára á óverðtryggðum lánum en þá tekur óvissan við um hvaða vextir verða í boði að þeim tíma liðnum. Fastir vextir eru líka yfirleitt hærri en breytilegir og því þarf að greiða meira fyrir þennan stöðugleika. Þegar endurskoðunartími slíkra lána nálgast geta lántakendur séð hvort stefni í að greiðslubyrði hækki og þar með gripið til nauðsynlegra ráðstafana ef þörf er á,“ segir á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Kostir og gallar óverðtryggðra lána

Nýverið birti hagdeild HMS grein þar sem fjallað var hættuna sem geti fylgt breytilegum vöxtum. Í kjölfarið skapaðist mikil umræða um áhættuna af töku óverðtryggðra lána.

HMS áréttar að þeim varnaðarorðum var fyrst og fremst beint að þeim sem hafa lítið svigrúm til að mæta mögulegum hækkunum á greiðslubyrði lána ef vextir fara að hækka að nýju. Miðað við stöðuna í efnahagsmálum og spá Seðlabanka Íslands um þróun stýrivaxta telur hagdeild að vextir á húsnæðislánum muni ekki hækka mikið á næstu misserum.

Breytilegir vextir auka hættu á greiðsluerfiðleikum

Greiðslubyrði af lánum með breytilegum vöxtum getur verið nokkuð sveiflukennd ef vextir breytast mikið. Breytilegum vöxtum fylgir meiri óvissa og áhætta fyrir lántakendur sem þurfa að vera í stakk búnir að mæta þessum sveiflum. Einhverjar lánastofnanir eru farnar að bjóða upp á vaxtaþak á óverðtryggð lán, þar sem mögulegt er að verja sig gegn miklum sveiflum á vöxtum og gott fyrir lántakendur að kynna sér einnig þann möguleika.

Breytilegir vextir eru mjög næmir fyrir breytingum á stýrivöxtum og eins og tíðrætt er þá eru stýrivextir í sögulegu lágmarki og sömu sögu er að segja um breytilega vexti. Því er mikilvægt fyrir lántakendur sem vilja nýta sér þessa lágu breytilegu vexti að hámarka ekki greiðslugetu sína miðað við núverandi vexti, heldur eiga inni svigrúm til að mæta þeim sveiflum sem geta orðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK