Tilbúnir í 14 milljarða fjárfestingu

Norðurál er með starfsemi á Grundartanga.
Norðurál er með starfsemi á Grundartanga. mbl.is/Sigurður Bogi

Forstjóri Norðuráls segir fyrirtækið reiðubúið að ráðast í fjárfestingu fyrir vel á annan tug milljarða, fáist nýr raforkusamningur hjá Landsvirkjun til mögulega allt að tuttugu ára þar sem kjörin eru sambærileg meðalverði til stóriðjunnar á síðasta ári. Þetta kemur fram í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins í dag.

Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls.
Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls.

„Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2019 var meðalverð til stóriðju um 23 dalir á megavattstund,“ segir Gunnar Guðlaugsson, forstjóri álversins. „Eitthvað í kringum þá tölu yrði ásættanlegt fyrir Norðurál,“ segir Gunnar í viðtalinu.

„Við höfum horft til þess að fara út í framleiðslu á svokölluðum álboltum, en til þess að geta gert það þurfum við að fara út í stóra fjárfestingu sem gæti numið um 14 milljörðum. Til að fara í slíka fjárfestingu þyrfti Norðurál orkusamning til tíu eða tuttugu ára. Við erum ekki að biðja um afsláttarkjör eða niðurgreiðslu, við viljum bara fá sama verð og meirihluti raforku er seldur á núna á Íslandi,“ segir Gunnar. Hann telur mögulegt að fara hratt af stað með verkefnið, jafnvel innan nokkurra vikna. 

Markaðurinn

Í viðtali við Morgunblaðið í apríl ræddi Gunnar meðal annars álverð en á þeim tíma var það um 1.450 dalir á tonnið. Eins ræddi hann um raforkuverð til álvera. 

Gunnar segir að vissulega dragi verðlækkunin úr tekjum álversins. Á hinn bóginn sé horft til lengri tímabila en nokkurra vikna hvað varðar álverð og rekstur álvera.

„Ef þetta væri meðalverð ársins væri staðan erfið. Við höfum hins vegar þá trú að þetta sé tímabundið ástand og að markaðir muni jafna sig. Það skiptir hins vegar máli hvað það tekur langan tíma.“

Norðurál hefur framleitt um 320 þúsund tonn á ári. Að sögn Gunnars dró Norðurál úr framleiðslunni í byrjun apríl. „Við þurfum meiri orku en er í okkar langtímasamningum til að framleiða á fullum afköstum. Sú orka sem er í boði er hins vegar á hærra verði en okkur er stætt á að kaupa við núverandi aðstæður.“

Álverið hafi til þessa getað selt allt ál sem það framleiðir. Ástandið bitni hins vegar á verðinu. Meirihluti álsins sem Norðurál framleiðir sé seldur í kauphöllinni með málma í London (LME). Það hafi strax áhrif á verðið ef eftirspurnin minnkar og birgðir safnast upp, segir í viðtalinu við Gunnar sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 8. apríl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK