Enn eykst verðbólgan á Íslandi

Húsgögn og heimilisbúnaður hækkuðu um 4% í verði í september …
Húsgögn og heimilisbúnaður hækkuðu um 4% í verði í september og hafði það talsverð áhrif á verðbólguna. mbl.is/Shutterstock

Verðbólga, mæld á tólf mánaða tímabili, mælist 3,5% og hefur ekki verið jafn mikil síðan í maí 2019 (3,6%) og desember 2018 er hún mældist 3,7%.

Vísitala neysluverðs hækkar um 0,39% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,53% frá ágúst 2020.

Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hækkaði um 4,0% (áhrif á vísitöluna 0,22%) og bílar hækkuðu um 2,3% (0,12%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,5% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,9%.

Þetta þýðir hækkun á verðtryggðum lánum en mun­ur­inn á óverðtryggðum lán­um og verðtryggðum er í grunn­inn sá að all­ar verðlags­breyt­ing­ar leggj­ast ofan á verðtryggð lán en ekki á þau óverðtryggðu. Óverðtryggð lán eru því var­in gegn verðbólgu.

Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un fjall­ar um lán­in á heimasíðu sinni. 

„Það er ekki þar með sagt að verðbólga hafi eng­in áhrif á óverðtryggð lán held­ur taka vext­ir á þeim til­lit til verðbólgu­vænt­inga. Ef verðbólgu­vænt­ing­ar hækka get­ur það leitt til hærri vaxta og þannig get­ur greiðslu­byrði af óverðtryggðum lán­um hækkað sömu­leiðis. Auk­in verðbólga hef­ur því áhrif á greiðslu­byrðina á óverðtryggðum lán­um en einkum á skulda­stöðuna á verðtryggðum en minni áhrif á greiðslu­byrðina. Ekki er hægt að full­yrða um að ann­ar kost­ur­inn sé betri en hinn enda fer það bæði eft­ir vaxta­kjör­um og eft­ir því hver verðbólg­an verður í framtíðinni. Í gegn­um tíðina hafa skipst á tím­ar þar sem verðtryggð lán og óverðtryggð hafa verið hag­kvæm­ari.

Ákvarðanir um breyti­lega vexti eru tekn­ar mánaðarlega og því geta þeir breyst með skömm­um fyr­ir­vara. Til að verja sig gegn þess­um sveifl­um eru nokkr­ir kost­ir í boði. Hægt er að velja fasta vexti en þeir eru hér­lend­is í boði annaðhvort fast­ir til þriggja eða fimm ára á óverðtryggðum lán­um en þá tek­ur óviss­an við um hvaða vext­ir verða í boði að þeim tíma liðnum. Fast­ir vext­ir eru líka yf­ir­leitt hærri en breyti­leg­ir og því þarf að greiða meira fyr­ir þenn­an stöðug­leika. Þegar end­ur­skoðun­ar­tími slíkra lána nálg­ast geta lán­tak­end­ur séð hvort stefni í að greiðslu­byrði hækki og þar með gripið til nauðsyn­legra ráðstaf­ana ef þörf er á,“ seg­ir á vef Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK