7,6% samdrætti spáð – mesti samdrátturinn í öld

Horfur eru á að landsframleiðsla dragist saman um 7,6% í ár sem yrði einn mesti samdráttur á síðustu 100 árum. Áhrif kórónuveirufaraldursins (COVID-19) á hagkerfið hafa verið víðtæk. Ferðaþjónusta hefur nánast lamast og atvinnuleysi aukist til muna, segir í tilkynningu á vef Hagstofu Íslands.

Gert er ráð fyrir bata á næsta ári og að landsframleiðsla aukist um 3,9% á milli ára. Áætlað er að þjóðarútgjöld dragist saman um 3,6% í ár en viðsnúningur verði á næsta ári og þau aukist um 3,9%.

Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2020 til 2026. Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 26. júní sl. og er næsta útgáfa fyrirhuguð í febrúar.

Spáð 2,8% verðbólgu að meðaltali í ár

Útlit er fyrir að einkaneysla dragist saman um 5% í ár vegna dekkri horfa og aukins atvinnuleysis. Árið 2021 er gert ráð fyrir að einkaneysla taki við sér á ný og aukist um 4,2%, 3,3% árið 2022 en aukist að meðaltali um 2,5% eftir það. Samkvæmt spánni eykst samneysla um 2,8% í ár og í kringum 1,8% út spátímann.

Fjárfesting dregst saman um 8,9% í ár þrátt fyrir umtalsverðan vöxt opinberrar fjárfestingar. Á næsta ári er reiknað með 5,5% vexti fjárfestingar, einkum vegna bata í atvinnuvegafjárfestingu. Spáð er hóflegum vexti fjárfestingar á næstu árum eftir það.

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verður neikvætt um rúm 4% en reiknað er með að útflutningur dragist saman um 30% í ár. Á næsta ári er gert ráð fyrir um 17% útflutningsvexti samhliða bata í ferðaþjónustu.

„Þrátt fyrir mikinn samdrátt útflutnings hefur innflutningur einnig minnkað verulega og því útlit fyrir að viðskiptaafgangur verði 1,8% af vergri landsframleiðslu í ár og að hann haldist jákvæður á spátímanum. Atvinnuleysi hefur aukist mikið það sem af er ári og er búist við að það verði 7,8% að meðaltali á árinu og nái hámarki í vetur. Atvinnuleysi verður áfram hátt á næsta ári, að meðaltali um 6,8%, en fer minnkandi eftir það. Gengi krónunnar hefur lækkað talsvert á árinu og er reiknað með að verðbólga aukist um 2,8% að meðaltali í ár og um 2,7% á næsta ári,“ segir í þjóðhagsspánni sem gefin var út í dag.

Rúmlega 14% samdráttur á fasteignamarkaði

Íbúðafjárfesting hefur vaxið mikið síðastliðin fjögur ár og náði vöxturinn hámarki í fyrra þegar hún jókst um rúmlega 31%. Í ár hefur orðið viðsnúningur og mældist rúmlega 14% samdráttur á fyrri hluta ársins. Útlit er fyrir að samdráttur á seinni hluta ársins verði svipaður og að hann teygi sig yfir á næsta ár. Því er gert er ráð fyrir að íbúðafjárfesting dragist saman um rúm 14% í ár.

Þjóðhagspáin í heild 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK