„Við höfum ekki val um annað“

„Alþingi hefur stigið mörg skref í rétta átt en að …
„Alþingi hefur stigið mörg skref í rétta átt en að öllu óbreyttu munu núgildandi ákvæði í lögum um endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar falla úr gildi árið 2022,“ segir Sigríður. „Það þýðir að jafnt sprotafyrirtæki sem og okkar stærstu og öflugustu nýsköpunarfyrirtæki eiga erfiðara með að gera langtímaáætlanir.“ Arnþór Birkisson

Ísland hefur alla burði til að vera nýsköpunarland en til þess þurfa stjórnvöld og atvinnulíf að hafa skýra framtíðarsýn og leggjast á eitt. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins.

„Samfélagsgerðin er á margan hátt heppileg fyrir nýsköpun: menntastigið í landinu er hátt, boðleiðir stuttar og frumkvöðlaumhverfið frjótt. Undanfarin ár hafa verið gerðar jákvæðar breytingar á löggjöf og skattaumhverfi sem skapa hvata til nýsköpunar og einnig er almennur skilningur á því að verandi fámennt eyríki í Norður Atlantshafi erum við sérstaklega háð utanríkisverslun og nauðsynlegt er að styrkja stoðir útflutnings,“ segir Sigríður. „Það sem meira er; við höfum ekki val um annað en að stefna í þá átt að efla atvinnulífið með nýsköpun, enda komin að krossgötum hvað varðar áframhaldandi lífskjarasókn hér á landi. Það er ólíklegt að við munum sækja hagvöxt á næstu árum og áratugum með aukinni auðlindanýtingu. Með því að sækja fram með nýsköpun að leiðarljósi stuðlum við að fjölbreyttari útflutningi og sjálfbærari hagvexti, og hér er allt til staðar til þess að sú framtíðarsýn geti orðið að veruleika.“

Lífeyrissjóðirnir gegni stærra hlutverki

Spurð hvaða aðgerðir væru líklegastar til árangurs nefnir Sigríður að stórar breytingar hafi verið gerðar í vor í tengslum við endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar en huga þurfi að öðrum þáttum, meðal annars þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun nýsköpunarverkefna. „Það er til nægt fjármagn í hagkerfinu og staða lífeyrissjóðanna er sterk. Þeir hafa vissulega beint fjármagni í nýsköpun en upphæðirnar eru litlar í samhengi við stærð kerfisins. Lögum um lífeyrissjóði var nýlega breytt til að liðka fyrir fjárfestingum þeirra í vísisjóðum og mun það vonandi þýða að fleiri slíkir fjárfestingasjóðir verði settir á laggirnar.“

Hún segir blasa við að efla ætti samkeppnissjóði á sviði nýsköpunar og festa í sessi breytingar á endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. „Við sjáum nú metaðsókn í Tækniþróunarsjóð og árangurshlutfallið var í sögulegu lágmarki í ágúst þegar einungis 8% verkefna hlutu styrk. Þetta þýðir einfaldlega að margar efnilegar viðskiptahugmyndir verða ekki að veruleika og við missum úr greipunum tækifæri til verðmæta- og atvinnusköpunar,“ útskýrir Sigríður. „Í haust má svo vænta þess að nýi opinberi sjóðasjóðurinn Kría fari af stað af fullum krafti. Þar tel ég að verið sé að beita hárréttri nálgun á hlutverk ríkisins og ætti Kría að leiða til þess að fjárfestingarumhverfið á Íslandi verði þroskaðra og meiri samfella í framboði á fjármagni til nýsköpunar.“

Auk sértækra aðgerða til að örva nýsköpun segir Sigríður einnig mikilvægt að huga stöðugt að almennum skilyrðum til atvinnurekstrar og að tryggja sem hagfelldast starfsumhverfi fyrirtækja. „Það þýðir t.d. að regluverkið má ekki vera of íþyngjandi og skattar hóflegir, og að reglurnar séu fyrirsjáanlegar,“ útskýrir hún. „Alþingi hefur stigið mörg skref í rétta átt en að öllu óbreyttu munu núgildandi ákvæði í lögum um endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar falla úr gildi árið 2022. Það þýðir að jafnt sprotafyrirtæki sem og okkar stærstu og öflugustu nýsköpunarfyrirtæki eiga erfiðara með að gera langtímaáætlanir en rannsókna- og þróunarverkefni eru iðulega langtímaverkefni. Ef þessar lagabreytingar verða gerðar ótímabundnar væri mun auðveldara fyrir fyrirtæki að taka ákvörðun um að setja á laggirnar ný og metnaðarfull þróunarverkefni.“

Munar um hvern erlendan sérfræðing

Öflugt nýsköpunarland þarf líka á sterkum mannauði að halda og segir Sigríður að miði í rétta átt við að efla nám í iðn- og tæknigreinum og styrkja samstarf atvinnulífs og háskólasamfélags. Hins vegar mætti skoða betur leiðir til að laða að erlenda sérfræðinga og þykir Sigríði sérstaklega eftirsóknarvert að bjóða upp á þann möguleika að sérfræðingar geti nokkuð auðveldlega unnið fjarvinnu frá Íslandi í lengri eða skemmri tíma. Verðmæti séu fólgin í því, þar sem það fólk sem veldi að koma til Íslands til að starfa myndi sækjast eftir því að taka þátt í íslensku atvinnulífi, fræða- og nýsköpunarsamfélagi. „Eflaust myndu sum þeirra í framhaldinu láta til sín taka og stofna sín eigin fyrirtæki eða ganga til liðs við íslensk fyrirtæki þar sem sérþekking þeirra kæmi að góðum notum.“

Að fá erlenda sérfræðinga til starfa snýst ekki aðeins um að manna mikilvægar stöður hjá nýsköpunarfyrirtækjum heldur líka að veita íslenskum fyrirtækjum sem bestan aðgang að nýjustu þekkingu í hverjum geira. „Það fer af stað ákveðinn þekkingarmargfaldari með hverjum sérfræðingi sem kemur hingað til lands,“ segir Sigríður.

Samtök iðnaðarins, í samvinnu við Íslandsstofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, settu nýja vefsíðu í loftið á síðasta ári til þess að bæta upplýsingagjöf til sérfræðinga og frumkvöðla sem hafa augastað á Íslandi. Slóðin er work.iceland.is. „Þar kynnum við Ísland sem ákjósanlegan stað til búsetu og starfa. Núna er verið að vinna að gerð kynningarmyndbanda sem fjalla um ýmsar hliðar þess að setjast hér að og hefja störf. Þar er m.a. rætt við sérfræðinga sem vinna hjá íslenskum hugverkafyrirtækjum og segja frá sinni reynslu,“ segir Sigríður. „Þeim verður tíðrætt um hvað Ísland er fjölskylduvænn staður og á margan hátt frábært að búa hér.“

Að mati Sigríðar ætti að vera hægt að laða að miklu fleiri frumkvöðla og sérfræðinga erlendis frá, og til mikils að vinna fyrir bæði atvinnulíf og þjóðarbú. „Um þessar mundir er mikið rætt um það hve verðmætir erlendir ferðamenn eru, sem þeir eru sannarlega, og hvernig þeir örva hagkerfið. En ég tel að við ættum ekki síður að skoða hversu verðmætir erlendir sérfræðingar eru og reyna að fjölga þeim rétt eins og við reynum að fjölga ferðamönnunum.“

Aukin þátttaka almennings í fjárfestingum í nýsköpun

Meðal þess sem Sigríður vill koma til leiðar er að stjórnvöld kynni til sögunnar aukna hvata fyrir einstaklinga til að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Hún segir Bretland hafa farið þessa leið fyrir nokkrum árum síðan og árangurinn ekki látið á sér standa: „Þar voru viðtökurnar slíkar að á aðeins einu ári nutu um 6.000 fyrirtæki góðs af. Ef við myndum heimfæra þær tölur upp á Ísland myndi það jafngilda því að framlag einstaklinga myndi fjármagna um 30 nýsköpunarfyrirtæki ár hvert. Raunin er að núverandi skattahvatar eru ekki að nýtast nema 2-3 nýsköpunarfyrirtækjum árlega og því ljóst að þarna leynast mikil tækifæri.“
Þetta viðtal birtist upphaflega 1. október s.l. í sérblaði Morgunblaðsins og Samtaka iðnaðarins um Iðnþing 2020.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK