Ísland hefur alla burði til að verða nýsköpunarland

„Það mætti m.a. huga að markaðssetningu Íslands sem nýsköpunarlands til …
„Það mætti m.a. huga að markaðssetningu Íslands sem nýsköpunarlands til að laða að erlent hæfileikafólk og um leið fá fólkið okkar aftur heim með því að sýna þeim að hér stendur þeim til boða að vaxa og dafna og byggja á þeirri reynslu og menntun sem þau hafa öðlast erlendis,“ segir Árni.

Síðastliðinn áratugur einkenndist af mikilli grósku í nýsköpun af öllu tagi. Stjórnvöld hafa greitt leið nýsköpunar með breytingum á regluverkinu, styrkjum, hvötum og frádráttarheimildum. „Það má kannski segja að undanfarin tíu ár hafi verið formálinn að áratugnum fram undan sem við viljum meina að hafi alla burði til að verða áratugur nýsköpunar á Íslandi,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins.

Hann bendir á að oft spretti bylgjur nýsköpunar upp úr áföllum í efnahagslífinu. Þetta hafi verið raunin eftir bankahrunið þar sem bæði aðstæður og hugarfar fólks breyttust og ótal sprotafyrirtæki spruttu upp úr þrengingunum. Sum fyrirtækin urðu skammlíf, eins og gengur og gerist, en önnur náðu að blómstra og eru mörg orðin að stórum vinnustöðum í dag og búin að teygja anga sína langt út í heim. „Það háði okkur að pólitískur óstöðugleiki einkenndi fyrstu árin eftir bankahrun, með tíðum þingkosningum og stjórnarskiptum, en smám saman tók á sig mynd langtímastefna í kringum nýsköpun og urðu greinileg tímamót um og eftir miðjan áratuginn.“

Á Iðnþingi í september voru mikilvægi nýsköpunar gerð góð skil og m.a. bent á að þrjár grunnstoðir íslensks atvinnulífs eru komnar að ákveðnum mörkum í vexti sínum. „Ferðaþjónusta, orkusækinn iðnaður og sjávarútvegur eiga það sameiginlegt að byggja á nýtingu takmarkaðra auðlinda sem setja vexti þeirra vissar skorður,“ segir Árni. „Nýsköpun af öllum mögulegum toga hefur réttilega verið nefnd sem fjórða stoðin, og hefur það fram yfir hinar stoðirnar að hugvitið er ótakmörkuð auðlind. Nú þurfa fjármagn og stefna að haldast í hendur svo að okkur takist að búa til myndarlega fjórðu stoð undir okkar tiltölulega viðkvæma efnahagslíf enda hefur Ísland alla burði til að verða nýsköpunarland.“

Laði að og búi til hæfileikafólk

Innan Samtaka iðnaðarins hefur verið rýnt vandlega í þá þætti sem gætu eflt nýsköpun í landinu. Nota má aðrar þjóðir sem fordæmi til að sjá hvað hefur reynst vel, og einnig læra af þeim úrræðum sem kynnt hafa verið til sögunnar hér á landi á undanförnum áratug. Alþjóðlegur samanburður leiðir í ljós að á mörgum sviðum má gera betur en að Ísland hafi líka margt fram yfir önnur lönd.

„Það mætti m.a. huga að markaðssetningu Íslands sem nýsköpunarlands til að laða að erlent hæfileikafólk og um leið fá fólkið okkar aftur heim með því að sýna þeim að hér stendur þeim til boða að vaxa og dafna og byggja á þeirri reynslu og menntun sem þau hafa öðlast erlendis,“ segir Árni. „Markaðssetning nýsköpunar snýr líka að öllum stigum skólakerfisins enda þarf að tryggja að nemendur fái nýsköpunarhugarfar í veganesti út í lífið.“

Þá er ljóst að bæta þarf fjármögnunarumhverfi nýsköpunar enn frekar. „Styrkjakerfið hefur batnað og í dag er t.d. Tækniþróunarsjóður í mjög mikilvægu hlutverki við að styðja og fjármagna verkefni á sprotastiginu en það má til að mynda gera enn betur með því að virkja fjárfesta og bankana meira en þegar er gert,“ segir Árni. „Nú má finna ágæta hvata í skattkerfinu og geta fyrirtæki fengið rannsóknar- og þróunarkostnað endurgreiddan eftir ákveðnum reglum, og stjórnvöld eru búin að hækka þakið á endurgreiðslunum með myndarlegum hætti. Nýsköpunarfyrirtækin eru þó að reka sig á að endurgreiðslu- og styrkjakerfið er hægvirkt og getur tekið jafnvel hálft annað ár að fá endurgreiðslurnar. Það er afskaplega langur tími fyrir lítil fyrirtæki á sprotastiginu og væri æskilegt að kerfið gæti verið kvikara og hreyft sig hraðar. Þá er það galli við styrkjakerfi hins opinbera að langt getur verið á milli úthlutana og allt of langt að þurfa að bíða í hálft ár eða jafnvel lengur eftir því að vita hvort styrkumsókn bar árangur.“

Sem fæstar hindranir

Þessu tengt þá bendir Árni á að það væri jafnt sprotafyrirtækjum sem rótgrónum félögum til hagsbóta ef tækist að einfalda hvers kyns umstang sem fylgir daglegum rekstri og nýsköpun. „Það er æskilegt markmið að reyna að hafa hindranirnar sem fæstar og minnka allt flækjustig eins og mögulegt er. Hindranir í umhverfi til nýsköpunar draga ekki endilega úr eldmóði og framkvæmdum frumkvöðla heldur sóa kröftum þeirra í verðmætalitla vinnu. Sú stafræna þróun sem er nú allsráðandi, m.a. á vettvangi íslenskra stjórnvalda og opinberra stofnana, mun gjörbylta þessu.“

Árni minnir á að öflug nýsköpunarstefna snúist ekki bara um að búa til efnilega sprota heldur eigi að búa þannig um hnútana að nýsköpun sé hluti af daglegum rekstri sem flestra rótgróinna fyrirtækja. „Ef við lítum yfir allt sviðið þá er margt sem bendir til að þau fyrirtæki sem gera nýsköpun með einum eða öðrum hætti að hluta af sinni kjarnastarfsemi standi framar öðrum og hafi mesta samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði,“ segir hann. „En fyrirtæki þurfa að hafa það hugfast, ef þau ætla að ná árangri, að nýsköpun krefst þolinmæði og tekur tíma. Nýsköpun er ekki úrræði sem hægt er að grípa til sem skammtímalausnar og nota sem plástur á sárið í erfiðu efnahagsástandi eins og nú. Afraksturinn getur þó verið ríkulegur til miðlungs- og lengri tíma litið.“

Vissulega getur verið freistandi, þegar þrengir að í rekstrinum, að draga úr útgjöldum til rannsókna og þróunar enda fjárfesting sem óvíst er hvort og hvenær beri arð. Árni brýnir fyrir stjórnendum að gæta sín á því spara eyrinn en kasta krónunni og minnir á að nú sem aldrei fyrr hampi fjárfestar fyrirtækjum sem sinna nýsköpun af metnaði og er t.d. stór hluti markaðsvirðis sumra stærstu fyrirtækja heims byggður á væntingum um þær framtíðartekjur sem nýsköpun dagsins í dag á eftir að skapa: „Á Vesturlöndum er það núna að gerast í fyrsta skipti að nær öll verðmætustu fyrirtækin eru tækni- og nýsköpunarfyrirtæki og fjármagnið leitar þangað sem verið er að leita nýrra lausna og hrista upp í rótgrónum geirum.“

Þarf að vera eftirsóknarverður staður til að búa á

Margir hafa bent á að árangur íslensks atvinnulífs byggist ekki síst á því að laða að erlent vinnuafl sem mannað getur sérfræðistöður af ýmsum toga. Jafnvel þótt töluverð aðsókn sé í tækni- og vísindanám þykir ljóst að íslensku háskólarnir geti ekki útskrifað nógu marga sérfræðinga til að mæta þörfum atvinnulífsins.

Árni minnir á að eftirsóttasta starfsfólkið geti valið úr störfum í nánast hvaða landi sem er og hluti af því að gera íslenskar nýsköpunargreinar samkeppnishæfar sé að gera Ísland að eftirsóttum stað til að búa á. Þar spili inn í þættir á borð við verðlag, launastig og skattbyrði á fólk og fyrirtæki, en líka þættir sem erfiðara er að mæla og skipta sköpum fyrir lífsgæði þeirra sem setjast að í landinu. „Við eigum það til að gleyma hversu lánsöm við erum að búa í návígi við náttúruna, í öruggu og friðsælu samfélagi þar sem börnin geta fengið að vera frjáls,“ segir hann. „Skapandi og drífandi fólk kann líka að meta þá bjartsýni, þor og hjálpsemi sem íslenskt atvinnulíf og sprotasamfélag státar af og er eitthvað sem ekki er hægt að finna á mörgum öðrum stöðum í heiminum.“

Þessi grein birtist upphaflega 1. október s.l. í sérblaði Morgunblaðsins og Samtaka iðnaðarins um Iðnþing 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK