Blackbox í boði á N1 og á fabrikkunni fyrir norðan

Jóhannes Ásbjörnsson, markaðsstjóri Gleðipinna, og Karl Viggó Vigfússon framkvæmdastjóri Blackbox.
Jóhannes Ásbjörnsson, markaðsstjóri Gleðipinna, og Karl Viggó Vigfússon framkvæmdastjóri Blackbox. Kristinn Magnússon

Pítsustaðurinn Blackbox, sem hóf rekstur í janúar árið 2018, hefur markað sér nýja framtíðarsýn og stefnu og hyggst nú sækja fram á veitingamarkaðnum með nýjum Blackbox Express-stöðum, sem staðsettir verða á völdum N1-stöðvum. Þá ætlar Blackbox að opna inni á Hamborgarafabrikkunni á Akureyri, og gefa gestum þar með val um tvær gerðir af mat á sama staðnum. „Eftir breytinguna verðum við með Blackbox Pizzeria, sem eru veitingastaðir með fullum matseðli og svo Blackbox Express þar sem matseðillinn er minni, en gæðin og afgreiðsluhraðinn sá sami. Pizzeria-staðirnir verða í Borgartúni og á Akureyri, en Express-staðirnir í Staðarskála í Hrútafirði, Austurvegi á Selfossi, Lækjargötu í Hafnarfirði og Háholti í Mosfellsbæ,“ segir Karl Viggó Vigfússon, stofnandi og framkvæmdastjóri Blackbox, í samtali við ViðskiptaMoggann, og bætir við að fleiri staðir gætu bæst við síðar.

„Við ætlum að sjá fyrst hvernig þetta gengur.“

Þúsundir heimapítsa á mánuði

Blackbox hyggst einnig sækja fram á smásölumarkaði, en að sögn Karls Viggós seljast nú í hverjum mánuði á milli fimm og sjö þúsund foreldaðar heimapítsur í lofttæmdum umbúðum í verslunum Krónunnar. Þess má geta að pítsurnar á Express-stöðunum verða undirbúnar á sama hátt og þær sem seldar eru í Krónunni, handgerðar inni á Blackbox-veitingastaðnum. Einnig selur Blackbox sama súrdeigið og notað er í veitingahúsapítsurnar, í Krónunni. „Munurinn á okkar deigi og annarra, er að súrdeigið er mettaðra af vatni. Það þýðir að þegar þú ert að borða það sýgur það ekki í sig allt vatnið í maganum á þér. Það þýðir með öðrum orðum að pítsan er léttari í maga en þær pítsur þar sem notað er hefðbundið ger.“

Karl Viggó segir að Blackbox-súrdeigið þoli einnig mun meiri hita en annað deig. „Ofninn okkar, sem ég keypti í Bandaríkjunum á sínum tíma, er 350-400°C heitur. Ef pítsudeig úr geri færi þarna inn myndi það fuðra upp á stuttum tíma. Rakinn í súrdeiginu gerir að verkum að pítsan bakast eðlilega.“

Ofan á pítsurnar fer svo sérframleitt pepperoni, handskorin parmaskinka, sérblönduð pítsusósa, ferskur jalapeno, eða annað gæðahráefni, eins og Karl Viggó lýsir fyrir blaðamanni.

Markaðurinn orðinn krefjandi fyrir kórónuveiru

Jóhannes Ásbjörnsson, markaðsstjóri Gleðipinna, sem eiga Blackbox í félagi við Karl Viggó og Jón Gunnar Geirdal, segir að veitingamarkaðurinn hafi verið orðinn krefjandi löngu áður en kórónuveiran hafi látið fyrst á sér kræla snemma á þessu ári. Blackbox hafi því hafist handa snemma á árinu í að hagræða og endurhugsa reksturinn, og fyrirtækið hafi því verið betur statt en ella þegar faraldurinn skall á. „Hugmyndafræðin okkar gengur út að selja hágæðapítsu, með eintómu gæðahráefni, sem afgreidd er á áður óþekktum hraða,“ segir Jóhannes, og bætir við að eftir að búið er að ganga frá greiðslu líði aðeins tvær mínútur þar til pítsan er afhent, fullelduð.

Í faraldrinum hefur verið vinsælt að sækja pítsu á Blackbox, en Karl Viggó segir að 80 þúsund pítsur verði afhentar með þeim hætti á þessu ári.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK