Greinir á um verð fyrir þjónustuna

Rekstur Póstsins stefndi í þrot en nú horfir til betri …
Rekstur Póstsins stefndi í þrot en nú horfir til betri vegar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hætt er við að tekjur Íslandspósts dragist saman um 500 milljónir króna á þessu ári vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Stafar tekjufallið einkum af töfum, fækkun sendinga að utan og auknum kostnaði vegna þeirra. Þá hefur aukin netverslun innanlands ekki náð að vega upp samdráttinn í erlendum sendingum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýbirtri framhaldsúttekt Ríkisendurskoðunar á rekstri og fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Í niðurstöðum stofnunarinnar er bent á að stjórn og nýtt stjórnendateymi Ísandspósts hafi unnið gott starf við að „hagræða og endurskipuleggja í rekstri fyrirtækisins“.

Starfsfólki fækkað um 24,8%

Þannig hafi tekist að fækka starfsfólki og draga saman húsnæði án þess að það hafi komið niður á starfsemi. Bendir Ríkisendurskoðun á að starfsmannafjöldi í júní síðastliðnum hafi aðeins verið 75,2% af því sem hann var í sama mánuði í fyrra.

Þrátt fyrir hinn góða árangur sem lýst er í skýrslunni gera höfundar hennar ráð fyrir að Pósturinn geti lent í greiðsluerfiðleikum þegar líður á árið og að af þeim sökum þurfi sérstaklega að endurmeta fjárþörf fyrirtækisins vegna hinnar svokölluðu alþjónustubyrði sem á fyrirtækinu hvílir.

Í fyrra lagði ríkissjóður Póstinum til 1.500 milljónir króna til þess að lækka skuldir fyrirtækisins sem voru við það að sliga starfsemi þess. Ríkisendurskoðun útilokar ekki frekara inngrip og að „eigandi Íslandspósts ohf. þurfi að fylgjast náið með rekstrarhorfum félagsins með það fyrir augum að mögulega grípa til sérstakra ráðstafana á árinu til að tryggja rekstur þess“.

Birgir Jónsson, forstjóri Póstsins, segir að horfur í rekstri fyrirtækisins hafi snúist mjög til batnaðar frá því að skýrslan var skrifuð í upphafi sumars og því sé ekki ástæða til að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að tryggja rekstur þess.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 10. október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK