Dræm viðbrögð við yfirtökutilboði í Skeljung

Skeljungur hverfur varla af markaði í bráð.
Skeljungur hverfur varla af markaði í bráð. mbl.is/Júlíus

Yfirtökutilboð Strengs hf. í hlutafé í Skeljungi fékk dræm viðbrögð meðal annarra hluthafa, en því var aðeins tekið fyrir um 2,65% hlutafjár í félaginu. Strengur og tengdir aðilar, sem Jón Ásgeir Jóhannesson fór fyrir, áttu fyrir um 38% í félaginu, en munu fara með 40,56% atkvæða við uppgjör yfirtökuviðskiptanna eða 41,60% þegar leiðrétt hefur verið fyrir eigin hlutum

Þetta eru töluvert minni viðskipti en að var stefnt, en Jón Ásgeir, sem er stjórnarformaður bæði Skeljungs og Strengs, þakkaði öðrum hluthöfum „það traust og þá trú sem þeir hafa á þeirri vegferð sem kynnt hefur verið.  Strengur mun í krafti atkvæða sinna fylgja eftir þeirri sýn, öllum hluthöfum Skeljungs til hagsbóta,“ sagði Jón Ásgeir í tilkynningu, sem send var út eftir að lyktir tilboðsins urðu ljósar.

Aðrir stærstu eigendur Skeljungs höfnuðu allir yfirtökutilboði Strengs ehf., en þar fara fremstir í flokki sex lífeyrissjóðir: Frjálsi, Birta, Festa, Stapi, Lífsverk og Gildi. Samanlagt fara þeir með um 37% hlut í félaginu. Fram hefur komið að þeir hafi talið tilboðið of lágt, ekki voru allir á eitt sáttir með fyrirætlanir Strengs með félagið og eigur þess, en jafnframt hefur komið fram megn andstaða með þau áform að afskrá félagið af markaði.

Í yfirtökutilboði Strengs voru boðnar 8,315 krónur á hlut, en það er nokkru lægra en gengi hlutabréfanna hefur verið á markaði upp á síðkastið, en gengi þeirra var 9,11 krónur við lokun Kauphallarinnar í dag. Það er raunar hæsta verð frá því í mars á þessu ári, en tilboð Strengs er eilítið undir meðaltali dagslokaverðs Skeljungs á ársinu.

Strengur gerði yfirtökutilboðið til hluthafa Skeljungs hinn 6. desember, en það rann út í lok dags 4. janúar.  Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka og Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka voru umsjónaraðilar yfirtökutilboðsins fyrir hönd Strengs hf., en greiðsla verður innt af hendi til þeirra tilboðshafa sem samþykktu tilboðið, eigi síðar en mánudaginn 11. janúar 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK