Úr einelti í efnaðasta mann heims

Elon Musk, forstjóri Tesla, er ríkasti maður heims.
Elon Musk, forstjóri Tesla, er ríkasti maður heims. AFP

Á örskömmum tíma hefur Elon Musk, stofnandi og aðaleigandi Tesla, tekið fram úr Mark Zuckerberg, Bill Gates og Jeff Bezos, stofnendum Facebook, Microsoft og Amazon, á listanum yfir ríkustu menn heims.

Í byrjun síðasta árs var Musk í 35. sæti á listanum og átti þá „aðeins“ 27 milljarða dala. Hann tók fram úr fjárfestinum Warren Buffet í júlí og varð þar með sjöundi ríkasti maður heims og í nóvember rauk hann fram úr Gates og tók annað sætið. Þá höfðu auðæfi hans aukist um 100 milljarða dala árið 2020, jafnvirði tæplega 13 þúsund milljarða íslenskra króna. Núna trónir hann á toppnum á lista Bloomberg fyrir ofan Bezos sem hafði setið þar síðastliðin þrjú ár.

Graf/mbl.is

Gjöfult ár að baki

Þó svo að árið 2020 hafi verið erfitt fyrir marga var það gjöfult fyrir bílaframleiðandann Tesla, að því er kemur fram í fréttaskýringu AFP. Framleiðsla rafbílanna jókst, nýjar verksmiðjur voru teknar í notkun og fregnir bárust af hagnaði á nokkrum ársfjórðungum í röð. Hlutabréf í Tesla hækkuðu um yfir 700 prósent á árinu og fyrir vikið varð fyrirtækið verðmætara en allir helstu bílaframleiðendur heimsins samanlagt.

Þeir sem hafa fylgst með gangi mála hjá Tesla telja að Musk muni ekki takast að ná álíka góðum árangri á þessu ári. Þeir reikna þó með því að gott gengi fyrirtækisins haldi áfram með aukinni framleiðslu og áherslu á að vera í fararbroddi í nýjustu tækni, þar á meðal sjálfkeyrandi bílum.

Þó nokkrir greinendur telja engu að síður að gengi hlutabréfa í Tesla sé of hátt, jafnvel þótt þeir hrósi fyrirtækinu. „Frammistaða Tesla á árinu 2020 var tilkomumikil en ekki eins tilkomumikil og hækkun hlutabréfanna, sem við teljum enn að séu of hátt metin,“ sagði í tilkynningu frá JP Morgan Chase. Musk á um 21 prósent hlutabréfa í Teslu.

Graf/mbl.is

Á lista Bloomberg yfir milljarðamæringa, sem er uppfærður daglega, var Musk á miðvikudaginn um þremur milljörðum dala ríkari en Bezos áður en hlutabréfaviðskipti hófust daginn eftir. Á lista Forbes yfir ríkustu menn heims var Musk um 7 milljörðum dala á eftir Bezos þegar markaðir lokuðu á fimmtudaginn. Aftur á móti er hugsanlegt að Forbes taki ekki með í reikninginn hlutabréfarétt Musk, sem hann hlaut í tengslum við launapakka sinn. Í honum felst að hann getur keypt yfir 33 milljónir hlutabréfa í Tesla, að sögn CNBC.

Forríkur um þrítugt

Hvort sem Elon Musk hefur talað opinberlega um bíla eða ferðir út í geiminn hefur hann sýnt hæfileika til að hrífa fólk með sér sem ekki aðeins er í hópi fjárfesta eða vísindamanna.

Hann skaust upp á stjörnuhimininn í Kísildalnum þar sem hann hristi rækilega upp í hlutunum. Núna býr hann ekki lengur í Kaliforníu, því í síðasta mánuði tilkynnti Musk að hann hefði flutt til Texas. „Ef lið hefur verið á sigurbraut í of langan tíma getur það orðið dálítið værukært og telur sig eiga að fá hlutina upp í hendurnar og þegar það gerist vinnur það ekki titilinn lengur,“ sagði Musk á fundi sem Wall Street Journal hélt. „Kalifornía hefur verið sigurvegari í langan tíma... og þau taka því sem sjálfsögðum hlut.“

Þegar Musk, sem er með um 41 milljón fylgjenda á Twitter, fór fram úr Jeff Bezos sem ríkasti maður heims hafði hann þetta að segja: „En skrítið. Jæja, aftur til starfa...“

Lagður í einelti

Musk, sem er 49 ára, fæddist í Suður-Afríku. The Guardian greinir frá því að foreldrar Musk hafi skilið áður en hann varð 10 ára. Móðir hans var fyrirsæta en faðir hans var verkfræðingur og í fasteignabransanum. Snemma fékk Musk áhuga á tölvum og kenndi sjálfum sér að forrita. Hann varð fyrir miklu einelti í skóla og þurfi meira að segja að liggja á sjúkrahúsi í tvær vikur eftir að hópur drengja ýtti honum niður stiga. Hann fékk það á heilann að flytja til Bandaríkjanna sem hann leit á sem land tækifæranna.  

Musk er með ríkisborgararétt í Bandaríkjunum og Kanada eftir að hafa lokið námi í ríkinu Pennsylvaníu og kanadíska héraðinu Ontario. Þegar hann var 25 ára hafði hann stofnað Zip2, fyrirtæki fyrir auglýsingar á netinu, og var orðinn forríkur aðeins fimm árum síðar eftir að hafa selt fyrirtækið til Compaq Computer árið 1999. Hann fylgdi eftir þessu góða gengi með því að stofna netbankann X.com, sem síðar varð hluti af PayPal, sem eBay keypti árið 2002 fyrir 1,5 milljarða dala.

Musk í maí í fyrra þegar hann fagnaði vel heppnuðu …
Musk í maí í fyrra þegar hann fagnaði vel heppnuðu eldflaugarskoti. AFP

Á undanförnum árum hefur Musk komist í hæstu hæðir með vexti Tesla og komist nær leiðangri í geiminn sem hann sagði að snerist ekki eingöngu um peninga. „Framtíð Tesla er mjög mikilvæg fyrir framtíð heimsins,“ sagði hann árið 2018. „Hún er mjög mikilvæg fyrir líf á jörðinni.“

Stóð í deilum 

Musk hefur lagt áherslu á að markaðssetja Tesla Model 3 fyrir miðstéttarfólk frekar en eingöngu fyrir þá allra ríkustu. Eftir erfiðleika hjá Teslu árið 2018 hristi Musk upp í mörkuðum með því að tilkynna á Twitter að hann íhugaði að taka fyrirtækið af hlutabréfamarkaði og sagðist hann hafa tryggt sér fjármagn til þess. Hann hætti fljótlega við þau áform en í staðinn lenti hann upp á kant við bandarísk fjármálayfirvöld sem sektuðu hann um 20 milljónir dala fyrir fjársvik.

Musk á verðlaunahátíð í Berlín.
Musk á verðlaunahátíð í Berlín. AFP

Um svipað leyti lenti hann einnig upp á kant við breskan kafara sem hafði gert grín að honum fyrir að bjóðast til að útvega lítinn kafbát til að bjarga ungum fótboltadrengjum sem voru fastir í helli í Taílandi. Kafarinn, Vernon Unsworth, höfðaði mál gegn Musk fyrir að kalla hann barnaníðing á samfélagsmiðlum. Dómstóll úrskurðaði Musk í hag í desember 2019 á þá leið að ummælin væru ekki ærumeiðandi.

Bjartara var yfir árinu 2020 hjá Musk vegna góðs árangurs Tesla og fárra tíðinda af útistöðum hans við aðra. Ein undantekning á því varð þó síðasta vor þegar hann gagnrýndi heilbrigðisyfirvöld í Alameda-sýslu í Kaliforníu vegna takmarkana sökum Covid-19. Musk hellti yfir skálum reiði sinnar yfir þessum takmörkunum dögum saman og fékk stuðning frá Donald Trump Bandaríkjaforseta. Á endanum komust Musk og Kalifornía að samkomulagi á þann veg að verksmiðja Tesla hlaut undanþágu frá nýjasta samkomubanninu eftir að starfsmenn hennar voru sagðir nauðsynlegir.

Þau gleðitíðindi urðu svo í lífi Musk á síðasta ári að hann eignaðist dreng með söngkonunni Grimes. Nafn hans vakti sérstaka athygli, eða X Æ A-12, og fylgdi með sérstök útskýring móðurinnar á Twitter. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK