„Fjármálafyrirtæki sýni fyllstu varfærni“

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands hefur birt endurskoðuð tilmæli um arðgreiðslur fjármálafyrirtækja og kaup þeirra á eigin hlutabréfum sem gilda til 30. september á þessu ári, þar sem meðal annars er tekið mið af yfirlýsingu Evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB) frá 15. desember síðastliðnum.

Í henni voru eftirlitsstofnanir í löndum sem eiga aðild að ESRB hvattar til að beina því til fjármálafyrirtækja sem sæta eftirliti þeirra að gæta ýtrustu varúðar við greiðslu arðs og kaup á eigin bréfum fram til 30. september á þessu ári. EBA birti sama dag yfirlýsingu svipaðs efnis.

„Óvissa um þróun efnahagsmála“

„Mikil óvissa er um þróun efnahagsmála næstu misseri og rík ástæða til að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu. Fjármálaeftirlitsnefnd leggur því áherslu á að fjármálafyrirtæki sýni fyllstu varfærni þegar litið er til eiginfjárstöðu og tekur undir framangreindar yfirlýsingar ESRB og EBA,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Hún minnir einnig á yfirlýsingu fjármálaeftirlitsnefndar frá 22. september síðastliðnum um að niðurstaða úr könnunar- og matsferlinu 2019 um viðbótarkröfu um eiginfjárgrunn hjá kerfislega mikilvægu bönkunum þremur skyldi standa óbreytt þrátt fyrir aukna áhættu og óvissu tengda faraldrinum.

Í nýju yfirlýsingunni kemur fram að fjármálaeftirlitsnefnd leggist ekki gegn greiðslu arðs eða kaupum á eigin hlutabréfum en brýnir fyrir fjármálafyrirtækjum að eftirfarandi atriði verði höfð að leiðarljósi við ákvarðanir þar um:

  • Afkoma fjármálafyrirtækis hafi verið jákvæð á síðasta rekstrarári og áætlanir um þróun eigin fjár sýni sterka eiginfjárstöðu næstu þrjú ár. Mælst er til að mat fjármálafyrirtækis á hvoru tveggja verði borið tímanlega undir Fjármálaeftirlitið.
  • Fjárhæð arðgreiðslu eða kaupa á eigin bréfum nemi að hámarki 25% af uppsöfnuðum hagnaði eftir skatta vegna áranna 2019 og 2020 eða 0,4 prósentustiga lækkunar á hlutfalli almenns eiginfjárþáttar 1, hvort sem lægra reynist.

Fjármálaeftirlitsnefnd brýnir jafnframt fyrir vátryggingafélögum að gæta ýtrustu varfærni við stýringu eiginfjár vegna þeirrar óvissu sem ríkir í efnahagsmálum af völdum faraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK