Eðlilegt að fólk sýni sölu ríkiseigna tortryggni

Bjarni Benediktsson hefur ákveðið að hefja sölumeðferð á hlutum í …
Bjarni Benediktsson hefur ákveðið að hefja sölumeðferð á hlutum í Íslandsbanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segist ósammála þeirri gagnrýni að sala ríkisins á hlutum í Íslandsbanka sé ótímabær. Tilkynnt var á föstudag að hann hefði ákveðið að hefja sölumeðferð á hlutunum.

„Mér finnst þvert á móti, að þetta sé á margan hátt hárréttur tími. Við erum ekki að selja út frá neyð heldur erum við að sjá markaðinn taka við sér á dálítið óvæntan hátt,” segir Bjarni við mbl.is.

„Það er hins vegar eðlilegt, þegar verið er að selja ríkiseignir, að fólk sýni ákveðna tortryggni, kannski vegna þess að bankarnir fóru á hausinn hér í höndum einkaaðila fyrir rúmum áratug. En þegar betur er að gáð höfum við einfaldlega endurskrifað allt regluverkið í kringum bankana og þar með dregið úr áhættu. Og nú er tímabært að losa um eignarhaldið.“

Hann segir þó skipta máli hvernig að sölunni er staðið.

„Sú aðferðafræði sem við erum að beita hér, sem er að taka ekki of stórt skref, og nota markaðinn, eru mikilvægir þættir í mínum huga,“ segir ráðherra.

Langt söluferli fram undan

Ljóst er að söluferlið mun taka dágóðan tíma.

„Sölumeðferðin felur í sér undirbúninginn; áreiðanleikakönnun til útboðslýsingar, samtöl við fjárfesta, mat Bankasýslunnar á mögulegu virði o.s.frv.,“ segir Bjarni.

„Svo febrúar, mars og apríl munu fara í það. Ef allt gengur eðlilega fyrir sig gætum við séð fyrir okkur að framkvæma útboðið sjálft á síðari hluta maímánaðar, eða mögulega í júní.“

Þá segist ráðherra binda vonir við að töluverður áhugi verði á þátttöku í útboðinu.

„En það hangir að sjálfsögðu á því að markaðsaðstæður séu áfram hagstæðar eins og þær eru í dag. Það getur verið vandasamt að tímasetja útboð, en við ætlum að nota næstu mánuði til þess að undirbúa það.“

Þýðingarmikil sala í heimsfaraldri

Bjarni segir þýðingu sölunnar mikla í ljósi efnahagsvanda vegna kórónuveirufaraldursins.

„Þetta er ein af aðgerðunum sem við getum gripið til til að létta ríkissjóði fjármögnun á hallarekstri. Sala á eignarhlut er liður í aðgerðaáætlun okkar til næstu ára og vel heppnað útboð núna á allt að þriðjungshlut í bankanum getur líka gefið fyrirheit um að á næstu árum sé hægt að losa enn frekar um eignarhlutinn,“ segir hann.

„Það mun styðja ríkissjóð við fjármögnun vegna Covid-vandans.“

Sala á hlutum í Landsbanka ekki á dagskrá

Aðspurður segir Bjarni sölu á hlutum í Landsbanka ekki vera til umræðu að svo stöddu.

„Það er langbest að einbeita sér að því að gera þetta vel og mér þætti það eðlilegt næsta skref að halda áfram að selja hluti í Íslandsbanka. En það verður að gerast að hæfilegum tíma liðnum frá skráningunni,“ segir hann.

„Það eru önnur ákvæði sem gilda um Landsbankann í eigendastefnunni okkar. Þar erum við með þá langtímasýn að ríkið sé leiðandi hluthafi bankans. Hins vegar segir um Íslandsbanka að það sé stefnt að því að selja allan hlutinn. Svo mér finnst það eðlilegt í bili að vera ekkert að flýta sér um of.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK