Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, stýrir þættinum.
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, stýrir þættinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ný útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja verður kynnt á stafrænum útgáfuviðburði í dag klukkan 9:00. Upptöku frá viðburðinum má sjá hér. 

Að útgáfu leiðbeininganna standa sem fyrr Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland, en leiðbeiningarnar eru nú uppfærðar frá 5. útgáfu sem hefur verið í gildi frá árinu 2015, að því er fram kemur í tilkynningu frá Viðskiptaráði Íslands. Þó nokkrar breytingar eru gerðar á leiðbeiningunum að þessu sinni, þótt megininntak þeirra sé hið sama og uppsetningin hefðbundin.

Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja voru fyrst gefnar út árið 2004 og hafa þær verið endurskoðaðar með reglubundnum hætti frá þeim tíma.

„Leiðbeiningunum er ætlað að nýtast sem verkfæri stjórna og stjórnenda til að mæta þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir, en það er skoðun útgefenda að með því að fylgja góðum stjórnarháttum megi styrkja innviði fyrirtækja og efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu,“ segir í tilkynningunni og enn fremur:

„Hvort tveggja skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og æ fleiri fyrirtæki sjá sér hag í því að fara að leiðbeiningunum.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, mun fjalla um gildi …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, mun fjalla um gildi góðra stjórnarhátta.

Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, mun kynna helstu breytingar á leiðbeiningunum í 6. útgáfu. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, mun fjalla um gildi góðra stjórnarhátta og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins, fjallar um tilnefningarnefndir. Einnig munu ýmsir þátttakendur í viðskiptalífinu tjá sig um góða stjórnarhætti hér á landi og þýðingu leiðbeininganna. Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdstjóri Viðskiptaráðs Íslands, stýrir þættinum.

„Að streymi loknu verða leiðbeiningarnar aðgengilegar á nýjum vef, leidbeiningar.is, en tekið skal fram að ný útgáfa tekur gildi 1. júlí nk. og því þarf ekki að hafa þau fyrirmæli sem þar er að finna í huga á yfirstandandi aðalfundatímabili. Þá ber að nefna að samhliða leiðbeiningunum er gefið út rit um tilgang og ávinning tilnefningarnefnda sem einnig verður að finna á vefnum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK