Hagnaður Össurar um milljarður

Ljósmynd/Aðsend

Hagnaður Össurar á síðasta ári nam 8 milljónum bandaríkjadala (1 milljarði íslenskra króna) eða 1% af veltu. Bæði Covid-19 sem og áhrif frá sölu á eignum höfðu mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Össuri en ársuppgjör félagsins var birt í morgun. 

Hagnaður fjórða ársfjórðungs nam 4 milljónum bandaríkjadala (500 milljónum íslenskra króna) eða 2% af veltu.

Heild­ar­laun for­stjóra, Jóns Sigurðssonar, námu á síðasta ári 1.448 banda­ríkja­döl­um eða 187 millj­ón­um króna miðað við gengi dals gagnvart krónu í dag. Það jafn­gild­ir tæpum 16 millj­ón­um króna á mánuði miðað við gengi dagsins í dag. Inni í því eru bæði laun, hluta­bréf og aðrar þókn­an­ir. 

Sala ársins 2020 nam 630 milljónum bandaríkjadala (85 milljörðum íslenskra króna). Sölusamdráttur á árinu nam 8% í staðbundinni mynt og innri vöxtur var neikvæður um 10%.

Sala á fjórða ársfjórðungi nam 170 milljónum bandaríkjadala (23 milljörðum íslenskra króna). Sölusamdráttur nam 8% í staðbundinni mynt og innri vöxtur var neikvæður um 4% á ársfjórðungnum. Covid-19 hefur haft umtalsverð áhrif á sölu, mest í upphafi faraldursins, en á síðustu mánuðum hefur salan verið að færast í eðlilegra horf, þó að enn gæti áhrifa á stórum mörkuðum.

Innri vöxtur var neikvæður um 7% á stoðtækjum og 15% á spelkum og stuðningsvörum á árinu. Innri vöxtur var jákvæður um 1% á stoðtækjum og neikvæður um 12% á spelkum og stuðningsvörum á fjórða ársfjórðungi 2020.

Á fjórða ársfjórðungi gekk Össur frá sölu á fyrirtækjum, sem aðallega hafa selt spelkur og stuðningsvörur í Bandaríkjunum, með alls 20 milljónir bandaríkjadala (3 milljarða íslenskra króna) í ársveltu. Á sama tímabili var gengið frá kaupum á fyrirtækjum með alls 38 milljónir bandaríkjadala (5 milljarðar íslenskra króna) í ársveltu.

Rekstrarhagnaður nam 93 milljónum bandaríkjadala (13 milljörðum íslenskra króna) eða 15% af veltu á árinu 2020. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 24 milljónum bandaríkjadala (3 milljörðum íslenskra króna) eða 14% af veltu á fjórða ársfjórðungi 2020.

„Lausafjárstaða Össurar er sterk en sjóðsstreymi frá rekstri á árinu 2020 nam 119 milljónum bandaríkjadala (16 milljörðum íslenskra króna). Handbært fé auk ódreginna lánalína nam 275 milljónum bandaríkjadala í árslok (35 milljörðum íslenskra króna).

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 gerir ráð fyrir 10-15% innri vexti, 21-23% EBITDA-framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, 3-4% fjárfestingarhlutfalli og virku skatthlutfalli á bilinu 23-24%,“ segir í tilkynningu.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í tilkynningu: „Við erum sátt með rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins á þessu fordæmalausa ári 2020. Salan hefur verið að aukast og sjáum við jákvæðan innri vöxt í sölu stoðtækja á síðasta fjórðungi ársins. Sjóðsstreymi var sterkt á árinu þar sem áhersla var lögð á stjórnun veltufjár og fjárfestinga. Ég er sannfærður um að Covid-19-faraldurinn muni ekki leiða til breytinga á eftirspurn eftir okkar vörum og þjónustu til lengri tíma litið. Til að einfalda rekstur í spelkum og stuðningsvörum var ákveðið að selja hluta starfseminnar á árinu. Einnig var gengið frá kaupum á fyrirtækjum sem styrkja stöðu Össurar á lykilmörkuðum. Ég vill nýta tækifærið og þakka starfsmönnum okkar og viðskiptavinum fyrir sveigjanleika, góðan liðsanda og framlag þeirra á þessu krefjandi ári.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK