Vöruskiptin hagstæð í janúar

Fluttar voru út vörur fyrir 49,2 milljarða króna í janúar 2021 og inn fyrir 47,3 milljarða króna cif (44 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í janúar, reiknuð á fob/cif verðmæti, voru því hagstæð um 1,9 milljarða króna.

Til samanburðar voru vöruviðskiptin reiknuð á fob/cif verðmæti óhagstæð um 8,7 milljarða króna í janúar 2020 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruviðskiptajöfnuðurinn í janúar 2021 var því 10,6 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Vöruviðskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 140,1 milljarða en þó 58,9 milljörðum króna hagstæðari en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti útflutnings jókst á tólf mánaða tímabili

Verðmæti vöruútflutnings í janúar 2021 jókst um 2,2 milljarða, eða um 4,7% frá janúar 2020, úr 47 milljörðum króna í 49,2 milljarða. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 1,9 milljarða króna, eða 7,6% samanborið við janúar 2020, en samdráttur varð í útflutningsverðmæti sjávarafurða um 1,1 milljarð (5,8%).

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá febrúar 2020 til janúar 2021, var 623,2 milljarðar króna og hækkaði um 10,9 milljarða króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 1,8% á gengi hvors árs. Munar þar mestu um aukið verðmæti í útflutningi sjávarafurða og landbúnaðarvara, þar með talið í fiskeldi. Iðnaðarvörur voru 48,3% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánaði og var verðmæti þeirra 0,4% minna en á tólf mánaða tímabili þar á undan. Sjávarafurðir voru 43,1% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 5,0% á milli tólf mánaða tímabila.

Verðmæti vöruinnflutnings dróst saman um 5,9% á tólf mánaða tímabili

Verðmæti vöruinnflutnings nam 47,3 milljörðum króna í janúar 2021 samanborið við 55,7 milljarða króna í janúar 2020. Verðmæti innflutts eldsneytis og smurolíu dróst saman um 55,7% og verðmæti flutningatækja var 48,6% lægra en í janúar 2020. Verðmæti innfluttra hrá- og rekstrarvara jókst hinsvegar um 13,3% samanborið við janúar 2020.

Verðmæti vöruinnflutnings síðustu tólf mánuði var 763,2 milljarðar og lækkaði um 48,0 milljarða króna miðað við tólf mánuði þar á undan eða 5,9% á gengi hvors árs fyrir sig. Mestu munar um samdrátt í innflutningi á eldsneyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK