Saksóknari fær bókhald Samherja

Endurskoðunarfyrirtækinu KPMG er skylt að veita embætti héraðssaksóknara upplýsingar og …
Endurskoðunarfyrirtækinu KPMG er skylt að veita embætti héraðssaksóknara upplýsingar og afhenda gögn varðandi bókhald og reikningsskil allra félaga Samherja á árunum 2011 til 2020. mbl.is/Sigurður Bogi

Endurskoðunarfyrirtækinu KPMG er skylt að veita embætti héraðssaksóknara upplýsingar og afhenda gögn varðandi bókhald og reikningsskil allra félaga Samherja á árunum 2011 til 2020.

Fyrirtækið þarf einnig að afhenda héraðssaksóknara upplýsingar og gögn er varða eina skýrslu sem það vann um starfsemi Samherja árin 2013 og 2014. 

Þetta kom fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í byrjun desember en Landsréttur vísaði kæru Samherja frá í lok janúar. Fyrst var greint frá niðurstöðunni í Kjarnanum.

KPMG er með úrskurðinum skylt að aflétta trúnaði sem ríkir á milli endurskoðenda og viðskiptavina en fyrirtækið sá um bókhald Samherja þar til í fyrra.

Í úrskurði Héraðsdóms kemur fram að ætluð brot starfsmanna eða fyrirsvarsmanna Samherja kunni að varða greinar almennra hegningarlaga sem fjalli um peningaþvætti og eftir atvikum auðgunarbrot.

Héraðssaksóknari telur það einnig hafa þýðingu að upplýsa hvernig ákvarðanatöku var háttað innan félaga Samherja. Í drögum að skýrslunni, sem KPMG vann árin 2013 og 2014, kom fram að engin formleg framkvæmdastjórn væri innan Samherja og Þorsteinn Már Baldvinsson hefði mikil og fjölþætt áhrif á starfsemina.

Eftir athugasemdir Samherja var dregið úr umfjöllun um hlutverk og áhrif Þorsteins Más.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur er því sú, eins og áður kemur fram, að KPMG er skylt að veita embætti héraðssaksóknara upplýsingar og afhenda gögn um félög Samherja, sem og áðurnefnda skýrslu.

Landsréttur vísaði kæru Samherja frá en rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að líta svo á að félög Samherja hefðu verið aðilar að málinu í héraðsdómi. Af þeim sökum væri þeim ekki heimilt að kæra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK