Tap Icelandair Group 51 milljarður

Covid-19 og tilheyrandi ferðatakmarkanir höfðu gríðarleg áhrif á starfsemi Icelandair Group á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og dróst sætaframboð saman um 95%. Uppgjör fjórða ársfjórðungs Icelandair Group var birt í Kauphöllinni í kvöld. 

Þá lækkuðu heildartekjurnar í fjórða ársfjórðungi um 81% en þær námu 8,2 milljörðum króna. Hins vegar jukust tekjur af fraktflutningum um 48% milli ára, segir í tilkynningu frá félaginu.  

Tap ársins 2020 nam í heild 51,0 milljarði króna samanborið við tap að fjárhæð 7,8 milljarðar króna á árinu 2019. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir í fréttatilkynningu að það sé óhætt að segja að „2020 hafi verið mest krefjandi ár flugsögunnar“.

Eigið fé félagsins nam þá 29,7 milljörðum króna í lok árs.  

Gert ráð fyrir að flug fari að aukast

Eftirspurn í fyrsta ársfjórðungi þessa árs er enn lítil vegna stöðu heimsfaraldursins á lykilmörkuðum. Þó er gert ráð fyrir að flug fari að aukast frá og með öðrum ársfjórðungi.  

„Við stöndum enn frammi fyrir verulegri óvissu. Þróun faraldursins, dreifing bóluefna og hvernig reglur á landamærum þróast mun skipta sköpum varðandi framhaldið. Við erum hins vegar hóflega bjartsýn að geta aukið flug frá og með öðrum ársfjórðungi þessa árs,“ segir Bogi og bætir við: 

„Ég er þess fullviss að það verða talsverð tækifæri fyrir Ísland og þar með leiðakerfi Icelandair eftir faraldurinn. Ísland verður áfram eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og, vegna breytinga í samkeppnisumhverfinu, sjáum einnig aukin tækifæri í tengiflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku í gegnum Ísland.“  

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Auk þess verða Boeing 737 MAX-vélarnar teknar í rekstur á vormánuðum eftir umfangsmikið alþjóðlegt ferli en kyrrsetningu þeirra hefur verið aflétt. Segir Bogi það ánægjulegt. 

„Með skýrri framtíðarsýn, réttri forgangsröðun og samvinnu mun félagið koma sterkara til baka þegar flug og ferðalög glæðast á ný,“ segir Bogi að lokum í tilkynningunni.  

Farþegafjöldi dróst saman um 94% í janúar 

Fjöldi farþega í farþegaflugi á vegum Icelandair Group í janúar er í samræmi við áætlanir félagsins. Segir í tilkynningu að farþegatölurnar endurspeglist af stöðu Covid-19-faraldursins á mörkuðum félagsins og þeim ferðatakmörkunum sem eru í gildi á landamærum.  

Samkvæmt flutningatölu sem birtar voru í Kauphöllinni í dag var heildarfjöldi farþega í millilandaflugi hjá Icelandair um 11.600 í janúar en fjöldinn dróst saman um 94% á milli ára. 

Þó voru farþegarnir fleiri nú í janúar en síðustu mánuði fyrir jól. Það skýrist af auknum áhuga á flugi til og frá Íslandi yfir hátíðirnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK