Verðið hækkaði mest í Árbænum

Íbúðaverð hækkaði mest í Árbæ í fyrra.
Íbúðaverð hækkaði mest í Árbæ í fyrra. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúðaverð hækkaði mest í Árbæ í fyrra en þar jókst sala nýbygginga verulega, úr um 2% af seldum íbúðum upp í rúm 20%. Svo virðist sem hækkanir séu nokkuð tengdar breytingum á vægi nýbygginga í sölu enda eru nýjar íbúðir almennt dýrari en þær sem eldri eru. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans í dag þar sem fjallað er um þróun íbúðaverðs. 

Verðlag á höfuðborgarsvæðinu mælist enn hæst á hvern fermetra í miðborg Reykjavíkur. Hækkunin þar milli ára mælist þó bara rétt ofar meðaltalinu fyrir höfuðborgarsvæðið í heild. Þau hverfi sem eru dýrust á eftir miðborginni, þ.e. Vesturbær Reykjavíkur og Garðabær, hækkuðu aðeins um 2,5% og 3% milli ára sem er talsvert undir hækkuninni á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu öllu (5%) og til marks um það að munur á verði eftir einstaka hverfum höfuðborgarsvæðisins fari minnkandi.

Fermetrinn dýrastur í miðborg en ódýrastur í Breiðholti

Það má því segja að miðborgarálag hafi lækkað á síðustu árum. Íbúðir í fjölbýli voru í fyrra að jafnaði 20% ódýrari utan miðborgarinnar en í miðbænum, en voru tæplega 30% ódýrari árið 2015. 

Fermetraverð mældist frá 400-600 þús. kr. á hvern fermetra í fyrra. Lægst í Breiðholti og hæst í miðbæ Reykjavíkur en í miðbænum eru íbúðirnar einnig minnstar, eða að jafnaði 87,5 fm að stærð. Stærstu íbúðirnar sem seldust í fjölbýli var að finna í þeim hluta Kópavogs sem nær til Linda, Sala, Hvarfa, Þings og Kóra þar sem þær voru að jafnaði um 115 fm að stærð og kostaði hver fm 482 þús. kr., að því er segir í Hagsjá Landsbankans. 

„Sala nýbygginga jókst verulega á nýliðnu ári, meira en sala á íbúðum almennt sem jókst þó einnig nokkuð. Í fyrra seldust 1.406 nýjar íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem var 22% af allri slíkri íbúðasölu og 46% aukning milli ára.

Sem fyrr segir var aukningin hlutfallslega mest í Árbæ þar sem 74 nýjar íbúðir í fjölbýli seldust í fyrra samanborið við einungis fjórar árið áður. Fjölgun seldra nýbygginga var þó mest í miðbæ Reykjavíkur þar sem 249 nýjar íbúðir seldust í fyrra sem eru 151 fleiri en árið áður.“

Hlutfallslega flestar nýbyggingar seldust í Mosfellsbæ þar sem 57% af íbúðasölum í fjölbýli í fyrra voru í nýbyggingu. Þar á eftir var hlutfallið hæst í Garðabæ (47%), svo í miðbæ Reykjavíkur (42%) og svo þeim hluta Kópavogs sem nær til Vesturbæjarins, Austurbæjarins, Hjalla og Smára (36%).

Ef litið er til verðþróunar á nýjum íbúðum á þeim svæðum þar sem þær eru fyrirferðarmiklar í sölu má sjá að miðbær Reykjavíkur sker sig úr, en þar hefur verð á seldum nýbyggingum lækkað milli ára, þrjú ár í röð. Í fyrra mældist hækkun á verði nýbygginga alls staðar minni en hækkun á fjölbýli almennt á höfuðborgarsvæðinu, óháð aldri að því er segir í Hagsjá Landsbankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK