Eins milljarðs tap Valitor í fyrra

Herdís D. Fjeldsted tók við forstjórastólnum hjá Valitor snemma árs …
Herdís D. Fjeldsted tók við forstjórastólnum hjá Valitor snemma árs í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Valitor tapaði einum milljarði króna á síðasta ári, en til samanburðar var tap félagsins 9,5 milljarðar árið 2019. Heildartekjur félagsins drógust saman um 12% milli ára. Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri fyrirtækisins, segir mikilvægum áfanga hafa verið náð í að styrkja kjarnastarfsemina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Rekstrartap fyrir skatta og fjármagnsliði nam 1,4 milljörðum, en var 4,2 milljarðar árið áður. Heildartekjur lækkuðu sem fyrr segir um 12% milli ára og voru 14 milljarðar í fyrra. Þar af hækkuðu tekjur af færsluhirðingu lítillega, en tekjur af kortaútgáfu lækkuðu, enda nánast engin kortanotkun erlendis.

Rekstrarkostnaður félagsins var 5,9 milljarðar á síðasta ári, en var um 9 milljarðar árið áður. Í tilkynningunni segir að rekja megi lækkunina til einföldunar á rekstri, aukinnar skilvirkni og samþættingar grunnkerfa.

Valitor seldi síðasta vor starfsemi sína í Danmörku og hluta starfsemi sinnar í Bretlandi. Fram kemur að þær rekstrareiningar hefðu fram að því haft verulega neikvæð áhrif á félagið. Eigið fé Valitor nam í árslok 7,3 milljörðum og handbært fé var 16,9 milljarðar.

Fram kemur í tilkynningunni að rekstraráætlun Valitor á þessu ári geri ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir.

Valitor hefur síðustu þrjú ár tapað samtals tæplega 12 milljörðum króna. Árið 2018 var tapið 1,3 milljarðar, árið 2019 9,5 milljarðar og í fyrra um einn milljarður.

Höfuðstöðvar Valitor.
Höfuðstöðvar Valitor. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK