Vilja breyta umræðunni um fjárfestingar

F.v. Rakel Eva Sævarsdóttir, Rósa Kristinsdóttir og Aníta Rut Hilmarsdóttir.
F.v. Rakel Eva Sævarsdóttir, Rósa Kristinsdóttir og Aníta Rut Hilmarsdóttir. Ljósmynd/Eva Lind

Þrjár ungar konur sem starfa í fjármálageiranum og greinum honum tengdum vinna nú að því að skapa meiri fjölbreytileika á fjármálamarkaði í gegnum fræðsluvettvang á samfélagsmiðlinum Instagram. Þær telja aukna þátttöku kvenna á fjármálamarkaði vera mikilvægt skref í átt að jafnrétti, og vilja leggja sitt af mörkum til að stuðla að þeirri þróun. Þær hvetja því nú konur, sem og aðra, til þess að taka þátt á fjármálamarkaði og fjárfesta.

„Við höfum allar verið á mörgum vettvöngum þar sem umræður um þessi mál fara fram og oft upplifað að við séum staddar í eins konar bergmálshelli þar sem allir eru sammála um að breytinga sé þörf. Við urðum þreyttar á að tala um hlutina og veltum fyrir okkur hvað væri beinlínis hægt að gera,“ segir Rósa Kristinsdóttir, sem stendur að Instagram-síðunni Fortuna Invest, ásamt Rakel Evu Sævarsdóttur og Anítu Rut Hilmarsdóttur. Þær eru allar með próf í verðbréfaviðskiptum. 

Meginmarkmið Fortuna Invest er að auka fjölbreytileika á fjármálamarkaði og stuðla að þátttöku kvenna á því sviði. Um er að ræða fræðsluvettvang en ekki fjárfestingarráðgjöf og hefur miðillinn, sem var stofnaður í lok febrúar, nú þegar vakið mikla athygli á meðal allra kynja. 

„Við vildum líka breyta því hvernig talað er um fjárfestingar og gera fjármála- og fjárfestingafræðslu aðgengilega fyrir alla. Þú þarft ekki að hafa djúpa þekkingu á fjárfestingum eða hella þér í fjárfestingarheiminn. Þú þarft bara að búa yfir grunnþekkingu til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir um það í hverju þú átt að fjárfesta og hvers vegna þú ert að taka þessar fjárfestingaákvarðanir,“ segir Rakel Eva. 

Rétti tíminn til að fjárfesta

Aníta segir að þörf sé á því að breyta menningunni í kringum fjárfestingar. „Við viljum koma með nýja nálgun í umræðunni um fjárfestingar og fjárfestingamöguleika,“ segir Aníta. Hún bendir á að nú sé einmitt góður tími til þess að byrja að fjárfesta, í ljósi þess að vextir sem bjóðast sparifjáreigendum hafa lækkað verulega. 

„Núna blasir við nýr veruleiki þar sem fólk er ekki einu sinni að fá 1% ávöxtun á þessa innlánsreikninga. Þá þarftu að velta því meira fyrir þér hvar þú ætlar að geyma spariféð,“ segir Aníta. 

Rósa segir nokkuð vanta upp á að grunnfjármálalæsi sé kennt í skólum. Afleiðingin sé sú að þeir einstaklingar sem geta ekki nálgast fræðslu um fjármál hjá fjölskyldu eða vinum eigi erfiðara uppdráttar með að byrja að fjárfesta.

„Það er þannig að enginn fer í gegnum lífið án þess að fjárfesta í einhverju. Þú ert fjárfestir vegna þess að þú greiðir í lífeyrissjóð, tekur húsnæðislán, ert með innlán o.s.frv.,“ segir Rósa.

Þarft ekki að eiga mikla fjármuni

En getur hver sem er byrjað að fjárfesta umfram ofangreindar grunnfjárfestingar? 

„Þú þarft ekki að eiga mikla fjármuni til þess að byrja að fjárfesta og þetta snýst líka um það að þú sért meðvituð um neysluna þína. Hvert peningarnir þínir eru að fara, hversu mikið af þeim er eftir og hvernig þú ætlar að koma þeim í einhverja vinnu,“ segir Aníta. 

Þær vonast til þess að Fortuna Invest stuðli að aukinni umræðu um fjármál og hvetji fólk til að spyrja spurninga. Aðspurð segist Rakel finna fyrir því að hér á landi sé umræðan um fjármál frekar lokuð. 

„En við erum búnar að fá alveg ótrúlega mikið af góðum og áhugaverðum spurningum sem margir eru að velta fyrir sér en hafa kannski ekki greiðan aðgang að svörum við. Það er auðvelt og þægilegt að eiga samskipti í gegnum Instagram. Við finnum fyrir því að fólk er að senda okkur skilaboð, spyrja um ýmislegt og þakka fyrir þær upplýsingar sem við erum að veita,“ segir Rakel.

Á Instagram-síðu Fortuna Invest er að finna hafsjó af ráðleggingum um fjárfestingar. Spurðar um helstu atriði sem byrjendur ættu að hafa í huga í þeim efnum nefna þær Aníta, Rakel og Rósa mikilvægi þess að hafa yfirsýn yfir fjárhag og neyslu, að setja sér fjárhagsleg markmið, það að koma sparnaðinum í vinnu og læra með því að framkvæma. Að auki nefnir Rósa að stöðugleiki sé lykilatriðið, að byggja jafnt og þétt bæði upp þekkingu og sjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK