Bretarnir vildu Birgi að borðinu

Síðasta haust heltist fjárfestahópur undir forystu Birgis Þórs Bieltvedts úr lestinni í kapphlaupinu um kaupin á Domino's á Íslandi. Þegar það varð ljóst sneri Birgir sér að öðrum stórum verkefnum og keypti meðal annars rekstur Domino's í Svíþjóð.

Meðan á því gekk fækkaði áfram í hópi þeirra sem bitust um að kaupa reksturinn hér á landi af Domino's í Bretlandi sem keypt hafði reksturinn á árunum 2016 og 2017 á ríflega 8 milljarða króna. Að lokum stóð aðeins einn bjóðandi uppi, Alfa fjárfesting, og virtist fátt geta komið í veg fyrir að sjóður á þess vegum myndi hreppa hnossið.

Birgir Þór Bieltvedt hefur nú keypt Domino's á Íslandi og …
Birgir Þór Bieltvedt hefur nú keypt Domino's á Íslandi og eignast reksturinn þriðja sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Endurvöktu viðræðurnar í Svíþjóð

Hins vegar var aðkoma Birgis að fyrirtækinu skrifuð í skýin en hann hafði tvívegis verið eigandi þess hér á landi. Uppstyttur í viðræðunum hér heima ollu því að Domino's í Bretlandi leitaði aftur til Birgis og viðruðu fulltrúar fyrirtækisins hugmyndir um að hann kæmi að rekstrinum á Íslandi í samfloti við þáverandi eigendur þess. Komu þær hugmyndir fram úti í Svíþjóð þar sem Birgir var að búa sig undir að taka við rekstrinum þar í landi.

Þegar á hólminn var komið náðist hins vegar ekki samstaða um það innan stjórnar Domino's Group í Bretlandi að fara þá leið og ákvað Birgir þá að láta slag standa. Myndaði hann nýjan fjárfestahóp um kaupin á félaginu, annan en þann sem hafði staðið með honum að upphaflega tilboðinu.

Í viðtali í Dagmálum fer Birgir yfir þessa stöðu og bendir á að stjórnendur Domino's í Bandaríkjunum hafi ætíð verið honum hliðhollir í þessum málum.

„Öll kaup varðandi félagið voru háð samþykki þeirra. Það var alveg ljóst frá fyrsta degi, alveg eins og var þegar ég keypti reksturinn 2011 að Bandaríkjamenn vildu sjá mig taka við þessu. Væntanlega byggt á reynslu með mér og trausti. Þannig að það var mikill þrýstingur á það að ég tæki við þessu.“

Spurður út í hvað hafi valdið því að það slitnaði upp úr viðræðum við Alfa segist Birgir ekki vita það enda sé hann aðeins kaupandi að fyrirtækinu en hafi ekki komið aö viðræðum um sölu fyrirtækisins að öðru leyti.

„Hitt er síðan það að þetta er hámenntað fólk og það gerir sér grein fyrir því að ef það er sjóður sem er að kaupa fyrirtæki þá er mjög líklegt að hann muni selja það aftur innan skamms og það er auðvitað ekki gott fyrir neitt félag ef það er að skipta oft um eigendur.“

Birgir er gest­ur Stef­áns Ein­ars Stef­áns­son­ar í Dag­mál­um.

Þátt­ur­inn er op­inn öll­um áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má nálg­ast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á þátt­inn í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK