Segir rangfærslur í stefnunni

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá …
Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá félaginu. mbl.is/samsett mynd

Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alvogen og Alvotech, vísar alfarið á bug ákveðnum atriðum í frétt Fréttablaðsins um deilur hans og Róberts Wessman. Hann segir að svo virðist sem Björgólfur Thor Björgólfsson sé eini maðurinn sem hafi sýnt kjark til að stöðva ósæmilega hegðun Róberts.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alvogen og Alvotech, er sakaður um trúnaðarbrot í starfi í Fréttablaðinu í dag. Hann er sagður hafa fundað með Björgólfi Thor Björgólfssyni fjárfesti í lok síðasta árs. Fullyrt er að fundur Halldórs hafi verið til að afla upplýsinga, sem gæti nýst honum til að hafa uppi fjárhagskröfur á hendur fyrirtækjunum. Sagt er að „Alvogen telji slík samskipti alvarleg trúnaðarbrot“. Í fréttinni kemur einnig fram að Halldór hafi leitað til lögmannsstofunnar Quinn Emanuael til að „knýja fram samningsstöðu“.

Halldór vísar þessu alfarið á bug og segir að rangfærslur séu í stefnunni, sem hann muni frekar gera grein fyrir í héraðsdómi. Hann segir umfjöllun Fréttablaðsins ekki rétta að því er varði samskipti sín við Björgólf Thor og samstarfsvilja hans í rannsókninni. Upptaka og handrit er til af umræddum fundi, með hinni svokölluðu „rannsóknarnefnd“, sem staðfesti eina af mörgum rangfærslum fyrirtækisins. Halldór segir að fyrirtækin hafi umræddar upptökur en honum hafi verið neitað um afrit af þeim.

„Ég var spurður um það sérstaklega hvort ég hafi hitt Björgólf Thor. Ég greindi frá því að ég hafi spurt hann um ósæmilega hegðun Róberts, þegar hann var forstjóri Actavis. Hann hafi staðfest við mig ákveðna atburðarás í ágúst 2008, sem ég taldi mikilvægt að upplýsa um. Á þessum tíma hafi Róbert hringt í Sigurð Óla Ólafsson, aðstoðarforstjóra Actavis, og gert tilraun til að segja honum upp störfum undir áhrifum áfengis. Ég staðfesti við nefndina að Björgólfur Thor hafi umsvifalaust rekið Róbert frá Actavis fyrir þessa ósæmilegu hegðun. Ég taldi þessar upplýsingar mikilvægar fyrir rannsókn málsins og sýni að ósæmileg hegðun Róberts nái yfir að minnsta kosti 12 ára tímabil. Björgólfur Thor virðist því vera eini maðurinn sem hafi sýnt kjark til að stöðva ósæmilega hegðun Róberts.

Þá er því haldið fram í fréttinni að ég hafi neitað að mæta í þriðja sinn fyrir rannsóknarnefnd. Það er alrangt og fyrir liggi staðfesting á þessu á upptöku. Lögmaður White & Case sagði málinu lokið eftir sex klukkustunda yfirheyrslu, nema ég hefði frekari upplýsingar. Ég óskaði þá eftir því að fá aðgang að vinnugögnum mínum, til að geta aðstoðar frekar við rannsóknina og var þeirri beiðni hafnað. Ekki varð því úr frekari fundahöldum og ennþá hef ég ekki verið upplýstur um niðurstöðu rannsóknar, og engin svör fengið frá fyrirtækjunum um ásakanir.“

Hefur rætt við alla óvildarmenn Róberts

Halldór segist hafa sett sig í samband við alla þá óvildarmenn Róberts, sem hann hafi borið þungum sökum og vildi koma höggi á. Eins og áður hefur komið fram er um að ræða tvo háttsetta embættismenn, alþjóðlegan fjárfesti og íslenskan blaðamann. Halldór segir að ásakanir Róberts hafi í raun verið andstyggileg aðför að þeirra æru og mannorði. Halldór telur ekki óeðlilegt að hann ræði við umrædda aðila og beri undir þá ásakanir.

Engar fjárhagslegar kröfur

„Áfram er því haldið fram að ég hafi uppi einhverjar fjárhagslegar kröfur. Ég hef nú í tvígang sent stjórnum Alvogen og Alvotech sáttatillögu. Þar kemur skýrt fram að ég hef engar fjárhagslegar kröfur á hendur fyrirtækjunum. Ég hef líkt og áður áskilið mér rétt til að sækja bætur til Róberts persónulega, en hef ekki haft uppi sérstakar kröfur í þeim efnum. Tilgangur fundarins með Björgólfi Thor var ekki að knýja fram fjárhagslegt uppgjör og það kemur ekki fram í þeim gögnum, sem fyrirtækin hafa lagt fram í héraðsdómi. Ég ítreka áskorun mína um að fyrirtækin einfaldlega opinberi öll gögn úr yfirheyrslum lögmannsstofunnar White & Case.“

Engin trúnaðarbrot – engin fjölmiðlaumfjöllun

Halldór segir stefnu fyrirtækisins fulla af fullyrðingum sem ekki standist skoðun. Hann hafi til að mynda upplýst nefndina um að hann hafi við tilteknar kringumstæður rætt við fjölmiðla, en tók sérstaklega fram að engum trúnaðarupplýsingum hefði verið dreift.

„Staðreyndin er auðvitað sú að enginn fjölmiðill, hvorki hér heima eða erlendis, hafi fjallað um málið á þeim tíma, sem málið var í rannsókn. Það var ekki fyrr en fyrirtækin ákváðu að tilkynna sjálf um „hvítþvott“ Róberts, að fjölmiðlar sýndu málinu áhuga.“  

Sex lögfræðistofur

Halldór segir að Fréttablaðið geri talsvert úr því að hann hafi leitað til erlendrar lögmannsstofu til að aðstoða við málið. Halldór segir ljóst frá upphafi að við ofurefli hafi verið að etja þegar stór alþjóðleg fyrirtæki og Róbert sjálfur séu annars vegar. Þær lögmannsstofur sem hafa verið í sambandi við Halldór eftir áramót eða unnið að tengdum málum eru: BBA Legal, Lex lögmannsstofa,  Landslög og Mandat á Íslandi. Erlendis hafi White & Case og Boies Schiller Flexner gætt hagsmuna félaganna og Róberts.

„Ég réð einn lögmann á Íslandi til aðstoða mig í málinu. Hann leitaði til erlendrar lögmannstofu með stuðning og þeirra hlutverk hefur verið að sjá um bréfaskriftir vegna málsins. Ef sættir nást ekki í málinu, var óljóst hvar í heiminum slík mál yrðu höfðuð og því var mikilvægt að hafa bakland utan Íslands ef til kæmi.

Lögmaður hjá Lagastoð lögmannsstofu hefur unnið að málinu fyrir mína hönd og satt best að segja hefur hann verið hálf einmana, þegar kemur að því að skylmast við sex lögmannsstofur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK