Play ætlar ekki að bæta við sig langdrægum vélum

Þota Play af gerðinni Airbus 321 neo.
Þota Play af gerðinni Airbus 321 neo. Ljósmynd/Birgir Steinar

Play ætlar ekki að bæta langdrægum Airbus 321-flugvélum við flotann sinn. Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við flugsíðuna Simple Flying.

Play flýgur nú til áfangastaða í Evrópu en ætlar einnig að bjóða upp á flug til austurstrandar Bandaríkjanna frá og með næsta ári. Þannig mun flugfélagið tengja saman áfangastaði í Evrópu og Bandaríkjunum með millilendingu á Íslandi.

Play notar nú vélar af gerðinni Airbus 321 neo sem drífa til margra staða í Bandaríkjunum og Kanada. Ef félagið myndi taka í notkun A321LR-vél eða hina nýju A321XLR gæti það hins vegar flogið til allra staða í Bandaríkjunum og jafnvel til einhverra áfangastaða í Mið- og Suður-Ameríku.

Passa ekki við áform Play

Birgir segir félagið ekki hafa áhuga á þessum vélum. „Þær passa ekki inn í okkar áform því við ætlum ekki að fara í beint flug, til dæmis frá New York til London, eða eitthvað slíkt,“ segir hann í samtali við Simple Flying.

Play muni heldur einbeita sér að áfangastöðum á austurströnd Bandaríkjanna og í Vestur-Evrópu.

Þrátt fyrir að tækifæri gætu legið í áfangastöðum líkt og Los Angeles eða San Francisco segir Birgir að flug þangað myndi hafa áhrif á nýtingu flotans.

„Við viljum halda okkur við 24 klukkustunda tímaramma og 320-flugvélafjölskyldan er fullkomin fyrir það,“ segir Birgir.

Uppfært kl. 14:00 Samkvæmt upplýsingum frá Play byggði hluti af viðtalinu við Birgi hjá Simple Flying á misskilningi þar sem blaðamaður gekk út frá því að félagið hygðist nýta sömu áhöfn á leið til og frá Bandaríkjunum innan sama dags. Það hefur nú verið leiðrétt á vef Simple Flying og samsvarandi lagfæring gerð á fréttinni hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK