Úr 17 fermetrum í 1.700 á 17 árum

Góður andi er í nýju húsnæði Fjallakofans í Hallarmúla 2 …
Góður andi er í nýju húsnæði Fjallakofans í Hallarmúla 2 að sögn framkvæmdastjórans Halldórs Hreinssonar. mbl.is/Unnur Karen

Gríðarlegur vöxtur hefur verið hjá útivistarversluninni Fjallakofanum í gegnum tíðina en í gær opnaði verslunin í nýju 1.700 fermetra húsnæði í Hallarmúla 2. Halldór Hreinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, opnaði verslunina ásamt fjölskyldu sinni fyrir 17 árum í 17 fermetra húsnæði á annarri hæð í Bæjarhrauni 14 í Hafnarfirði en verslunin hefur heldur betur sótt í sig veðrið á þessum árum.

Halda sig við gullnu regluna

„Þótt maður sé búinn að vera lengi í þessum bransa er alltaf jafn gaman þegar maður er að byggja nýtt hús eða flytja í ný heimkynni þannig að það að flytja eitt stykki Fjallakofa og inn í svona merkilegt hús sem Hallarmúlinn er, það vekur bara kátínu og gleði og ekkert annað,“ segir Halldór í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að lykillinn að velgengni fyrirtækisins sé meðal annars sá að fókusinn hafi alltaf verið á viðskiptavininn. „Þetta er alveg eins og í boltanum. Við erum að keppa við gríðarlegan fjölda af öðrum stórum og sterkum fyrirtækjum en við erum með svo sterkan fókus á okkar spil og hvaða leikkerfi við erum að nota. Við erum ekki mikið að horfa á hina,“ segir Halldór. „Við höfum alltaf náð árangri með því að halda okkur við þessa gullnu reglu að horfa vel og „fókusera“ fram á veginn. Vera ekkert endilega að kíkja hinum megin á næstu akgrein, á næstu fyrirtæki.“

Covid og eldgosið hjálpuðu til

Halldór staðfestir að sprenging hafi orðið í útivist á Covid-tímum sem hafi meðal annars orðið til þess að ákveðið var að stækka húsnæði verslunarinnar.

„Það er búið að vera svona í Covid- ástandinu. Þá þurfti fólk svolítið að hlúa að andlegri heilsu og það er ekkert betra til þess en að fara út fyrir hússins dyr og rölta um náttúruna. Þá þarf fólk að klæða sig og fyrst og fremst að skóa sig sæmilega,“ segir Halldór sem bendir á að skósalan á Scarpa-skóm og öðrum vinsælum útivistarvörum hafi nánast tvöfaldast á síðasta ári.

„Svo kemur gosið ofan á þetta og svo koma ferðamennirnir aftur. Við vorum bara nauðbeygð til að stækka og anna veltuaukningunni og fjölguninni sem er að koma á hverjum degi,“ segir hann og bætir við að gríðarleg aukning hafi einnig verið á sölu á netinu undanfarið.

Eins og ítalska landsliðið

„[Netverslun] er í veldisvexti þannig að það er ekki bara gangandi traffíkin heldur líka nettraffíkin sem er enn þá meiri,“ segir Halldór.

Halldór segir stemninguna hjá fyrirtækinu minna á stemninguna í ítalska landsliðinu.

„Okkur líður eins og ítalska landsliðinu. Við erum bara á leiðinni í úrslitin. Við erum eins og krakkar sem eru í dótabúð en eru að stækka hana alveg um helming,“ segir hann og bætir við að spennan sé gríðarleg.

Nýja verslunin í Hallarmúla tekur nú við sem flaggskip fyrirtækisins en áfram verður einnig verslun á Laugavegi 11 og í Kringlunni 7 þó að sú síðarnefnda verði með aðeins breyttu sniði sem verður tilkynnt síðar.

Halldór segir að mun rýmra verði um fatnað, aðrar útivistarvörur og auðvitað viðskiptavini verslunarinnar í nýja húsnæðinu auk þess sem enn betur verður hægt að þjónusta þá.

„Við erum alltaf að reyna að bæta þjónustuna eins og hægt er. Við horfum alltaf á viðskiptavininn sem okkar vinnuveitanda,“ segir Halldór.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júlí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK