Eyjólfur ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga

Eyjólfur Vilberg Gunnarsson hefur störf sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga í …
Eyjólfur Vilberg Gunnarsson hefur störf sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga í september. Ljósmynd/Aðsend

Eyjólfur Vilberg Gunnarsson hefur verið ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga. 

Sparisjóður Suður-Þingeyinga ses. er ein elsta fjármálastofnun landsins en hann varð til við sameiningu fimm sparisjóða í Suður-Þingeyjarsýslu. Sá elsti þeirra, Sparisjóður Kinnunga, var stofnaður árið 1889. Hinir voru Sparisjóður Aðaldæla, Sparisjóður Fnjóskdæla, Sparisjóður Mývetninga og Sparisjóður Reykdæla. Aðalstarfsstöð Sparisjóðsins er á Laugum í Reykjadal en að auki eru starfræktar tvær starfsstöðvar, annars vegar í Reykjahlíð, Mývatnssveit, en hins vegar á Garðarsbraut, Húsavík. 

Eyjólfur er með viðskiptafræðimenntun frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í fjárfestingarstjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Einnig er Eyjólfur að taka löggildingu fasteigna- og skipasala, með skipstjórnarréttindi á skip upp að 45 metrum, vélavarðarréttindi upp að 750 kw og knattspyrnuþjálfararéttindi, að því er segir í tilkynningu.  

Eyjólfur starfaði í rúm 10 ár fyrir Arion banka og að hluta samhliða meistaranámi við greiningardeild Glitnis og til fjögurra ára hjá Lýsingu sem fjármálaráðgjafi fyrirtækja. Hann er ekki ókunnur Norðurlandi en Eyjólfur starfaði sem fjármálastjóri hjá Fjallalambi á Kópaskeri á árunum 2002 til 2004 í kjölfar útskriftar úr viðskiptafræði og lærði til stýrimanns á Dalvík árið 1994. 

Eyjólfur er fæddur og uppalinn í Grindavík og starfaði við störf tengd sjávarútvegi fram að háskólanámi, aðallega til sjós. Undanfarið ár hefur Eyjólfur starfað við eigið fyrirtæki við ráðgjöf til fyrirtækja og sem aðstoðarmaður fasteignasala hjá Gimli.

Eyjólfur hefur störf í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK