Stækkar byggð við flugvöllinn

Reitur H er til vinstri en reitur G er til …
Reitur H er til vinstri en reitur G er til hægri á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg

Eigendur tveggja byggingarlóða á Hlíðarenda hafa óskað eftir leyfi fyrir 350-390 íbúðum á lóðunum í stað atvinnuhúsnæðis sem átti að vera samtals 35 þúsund fermetrar.

Eigendur reitanna eru félagið S8 ehf. annars vegar og eignasjóður Reykjavíkurborgar hins vegar. Miðað við að lóðaverð á íbúð sé að jafnaði um 10 milljónir gæti sala lóðanna skilað 3-4 milljörðum króna.

Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans hafa fulltrúar borgarinnar tekið jákvætt í þessar hugmyndir. Því eru menn eftir atvikum vongóðir um að tillagan fái brautargengi en lóðasalan gæti skilað borginni vel á annan milljarð króna.

Hætt við að reisa risahótel

Með umsókninni, sem ASK arkitektar leggja fram fyrir hönd lóðahafa, er horfið frá hugmyndum um risahótel á öðrum reitnum, svonefndum H-reit, en áformað var að reisa þar 400-450 herbergja hótel.

Samtals er búið að byggja eða skipuleggja um 710 íbúðir á reitum B-F á Hlíðarenda. Með reitum G og H gæti sá fjöldi farið í tæplega 1.100 íbúðir og með því orðið til rúmlega tvö þúsund manna hverfi.

Ekki er gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði á jarðhæð á nýju reitunum tveimur, G og H, og mun ástæðan fyrir því vera mikið framboð slíks húsnæðis í hinu nýja hverfi. Gert er ráð fyrir að Hringbrautin fari í stokk sem hefjist norðan við H-reitinn. Þá er mikil uppbygging fyrirhuguð á svonefndum BSÍ-reit.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK