Fáir skipta um raforkusala

Fáir virðast velta fyrir sér verðmuni milli smásala á rafmagni. …
Fáir virðast velta fyrir sér verðmuni milli smásala á rafmagni. Margir huga þó að þeim málum þegar rafbíll er keyptur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tölur sem fyrirtækið Netorka heldur utan um sýna að lítil hreyfing er á viðskiptavinum milli raforkufyrirtækjanna. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs (tölurnar teygja sig fram um einn mánuð og miðast við punktstöðu 10 dags mánaðarins sem á undan kemur) færði samtals 2.041 fyrirtæki sig á milli raforkusala og yfir sama tímabil fluttu 3.318 heimili sig á milli þjónustuaðila.

Þótt tölurnar kunni að þykja háar er hreyfing viðskiptavina hverfandi lítil hlutfallslega þegar litið er til þess að í landinu eru yfir 240 þúsund mælar sem halda utan um raforkukaup landsmanna.

„Það er í raun lítil hreyfing á markaðnum og fólk virðist lítið vera að velta þessu fyrir sér. En það skýrist kannski af því að þau fyrirtæki sem bjóða lægsta verðið eru ekki að auglýsa. Fyrirtækin með hærra verðið auglýsa mikið en minnast aldrei á verðið. Bara að þar sé mesta „stuðið“.“ Þetta segir Símon Einarsson en hann er í hópi eigenda fyrirtækisins Straumlindar sem er nýjasti aðilinn á smásölumarkaði með raforku. Fyrirtæki hans selur kílóvattsstundina á 6,46 kr. rétt eins og Íslensk orkumiðlun. Á sama tíma er verðmiðinn 8,11 krónur hjá HS Orku og 8,10 krónur hjá Orku náttúrunnar. Munar því u.þ.b. 20% á hæsta og lægsta verði á markaðnum. Spurður út í hvað valdi lítilli hreyfingu á markaðnum segir Símon að ýmsar ástæður liggi þar að baki. M.a. hafi það áhrif að lítil viðleitni sé sýnd til þess að gera fólki þetta auðvelt.

„Í grunninn er þetta auðvelt og hægt að leysa á einum stað, t.d. síðunni aurbjorg.is. Hins vegar sjáum við að þegar fólk skiptir um húsnæði fær það sendan póst varðandi raforkusöluna. Í stað þess að þar sé fólki gert auðvelt að velja sér orkusala eru skilaboðin flókin og tæknileg. Þarna væri hægt að leysa hlutina með mun skilvirkari hætti fyrir neytendur,“ segir Símon. Spurður út í það hverjir helst skipti um raforkusala segir hann koma á óvart hversu fáir sem nýta þurfi rafmagn til húshitunar séu í þeim hópi. Þó greiði fólk á ákveðnum svæðum töluvert háa rafmagnsreikninga í þeim tilvikum.

„Það eru helst þeir sem fjárfesta í rafbílum sem eru að spyrjast fyrir um þjónustuna og hvernig best sé að skipta. Þá virðist fólk setja athyglina á þetta, enda hækkar rafmagnsreikningurinn óhjákvæmilega þegar rafbílahleðslan bætist ofan á hefðbundna notkun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK