Sjá tækifæri í eldgosinu

Áformað var að hafa bílastæði á þessu túni suður af …
Áformað var að hafa bílastæði á þessu túni suður af Langahrygg. Svæðinu var lokað í bili í fyrradag mbl.is/Baldur

Sigurður Guðjón Gíslason, formaður Landeigandafélags Hrauns sf., segir landeigendur gera ráð fyrir að svæðið í Geldingadölum verði vinsæll áfangastaður til langrar framtíðar. Því sé til skoðunar að byggja upp innviði með þjónustu til frambúðar.

Þegar Morgunblaðið leit við á gosstöðvunum í síðustu viku var þar samankominn fjöldi erlendra ferðamanna og báru bílastæðin þess merki. Nú er hægt að leggja á fleiri stæðum en áður og um leið hefur skiltum fjölgað þar sem getið er um gjaldskyldu.

Austan við gönguleiðina var opnað nýtt stæði á vegum annarra aðila (sjá mynd) en því var lokað.

„Það hefur ekki verið mælt hvað við getum tekið við mörgum bílum en líklega getum við tekið við nærri tvö þúsund bílum yfir daginn. Það er búið að taka stór og mikil tún undir bílastæði,“ segir Sigurður Guðjón um framboðið sem anni eftirspurn.

Bílastæðin eru rekin af Landeigandafélagi Hrauns sf. en hluthafar í félaginu er alls átján. Að sögn Sigurðar hefur land í eigu Ísólfsskála einnig verið nýtt undir bílastæði og þar sé líka gjaldskylda. Rekstur stæðanna sé samstarfsverkefni þessara landeigenda en Ísólfsskálalandið sé í eigu yfir fjörutíu hluthafa.

Rafrænt eftirlit með stæðum

Hægt er að greiða fyrir bílastæðin á vefsíðunni parka.is en þar segir að gjaldið taki mið af dvalarlengd og að fylgst sé með númerum ökutækja með rafrænu eftirliti.

Spurður hvort það styttist í að rukkað verði sjálfkrafa fyrir leigu á stæðunum, eins og til dæmis í bílakjöllurum í Reykjavík, segir Sigurður Guðjón það vera til skoðunar.

„Það þarf að glíma við flækjustig á mörgum stöðum og það vantar rafmagn á svæðið, nema hvað það er rafmagn á bílastæðinu þar sem Ellubúð stóð áður,“ segir hann og vísar til verslunar björgunarsveitarinnar.

Eftir því sem bílastæðum fjölgar, þeim mun fleiri skilti greina …
Eftir því sem bílastæðum fjölgar, þeim mun fleiri skilti greina frá gjaldtöku mbl.is/Baldur

Við það bílastæði hafa verið settar upp myndavélar og segir Sigurður Guðjón þær á vegum Grindavíkurbæjar sem hafi eftirlit með umferð á Suðurstrandarvegi í báðar áttir.

„Hugmyndin er að vera með svipað fyrirkomulag og á til dæmis Höfðatorgi þar sem bílnúmer eru mynduð þegar ekið er inn og út úr bílakjallaranum og ökumenn sem ekki borga fá sjálfkrafa kröfu.

Best væri að hafa færri stæði

Það er auðvitað erfiðara að viðhafa slíkt fyrirkomulag á þessum túnum. Við erum að reyna að standa eins vel að þessu og kostur er þangað til framtíðarskipulag er komið á svæðið. Það er unnið að breytingum á skipulagi og þá kemst þetta í betra horf. Það væri ákjósanlegt að geta verið með eitt til tvö bílastæði í mesta lagi og geta hleypt fólki inn á einum stað og út á öðrum. Þá væri enda hægt að hafa miklu betri umsjón með þessu,“ segir Sigurður en nú er gjaldskylda á fimm bílastæðum. Tekjurnar eru trúnaðarmál.

Spurður hvort starfsfólk verði á svæðinu segir hann að það verði að sjálfsögðu einhver þjónusta í samstarfi við Umhverfisstofnun sem sé nú með landverði á staðnum.

Uppbyggingin fram undan verði væntanlega samstarfsverkefni landeigenda, Umhverfisstofnunar og framkvæmdasjóðs ferðamanna.

Sníða sér stakk eftir vexti

Óvissa um framvindu eldgossins hafi auðvitað mikil áhrif á verkefnið.

„Það er erfitt að sannfæra fólk um að fara í tugmilljóna framkvæmdir og vita ekkert um framhaldið en við höfum reynt að sníða okkur stakk eftir vexti og byggja þetta upp samhliða, eins og stendur á skiltunum, með tekjum af bílastæðunum. Við erum komin með salerni á svæðið og erum að fjölga bílastæðum. Það þarf að hefla vegi, viðhalda bílastæðum og svo framvegis. Þannig að það er heilmikil umsjón að halda þessu gangandi. Þegar landeigendur fá svona verkefni í fangið þurfa þeir líka að kaupa sér alls kyns sérfræðiþjónustu. Þar með talið hjá lögfræðingum og verkfræðingum. Þessi kostnaður hleypur orðið á mörgum milljónum,“ segir Sigurður sem staðfestir að tekjurnar hafi vegið upp kostnaðinn. „Já, við erum að nota þessa fjármuni í uppbyggingu en þegar menn setja svo mikla fjármuni í verkefni vilja þeir eðlilega einhverja rentu. Þetta er orðinn fyrirtækjarekstur,“ segir Sigurður Guðjón, sem er viðskiptafræðingur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK